149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

vandi ungs fólks á húsnæðismarkaði.

[16:32]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þátttöku hans í þessari umræðu og ég þakka jafnframt öllum þeim sem hafa flutt ágætar og snjallar ræður, sumar hverjar, misjafnlega snjallar, en engar verulega ósnjallar.

Þessi umræða hefur eins og við var að búast farið eftir nokkuð hefðbundnum brautum og jafnvel ofan í hefðbundnar skotgrafir og svo sem ekki annars að vænta. Umræðan hefur beinst að Reykjavíkurborg og að meintum mistökum Reykjavíkurborgar varðandi lóðaframboð og lóðauppbyggingu. Þetta er kannski ekki vettvangur til að fara mikið í saumana á því á þeim stutta tíma sem við höfum hér, en þess má þó geta að Reykjavíkurborg hefur á undanförnum árum staðið að gríðarlegri uppbyggingu, það var byggt alveg gríðarlega í Reykjavík á árunum 2015–2017. Þá risu 900 íbúðir og 2018 var stærsta byggingarár í sögu Reykjavíkur.

Það er eðlilegt að þetta mikla framboð hafi orðið til þess að þeir sem eiga íbúðirnar reyni að halda verðinu uppi á þeim íbúðum með umræðunni og fátt við því að segja. Við bara bíðum þess að verðrnyndun á þessum íbúðum verði eðlileg.

Mér finnst mikilvægt að árétta að húsnæðisbætur þurfa að hækka. Þær byrja að skerðast allt of snemma. (Forseti hringir.) Þær byrja að skerðast við lágmarkslaun og þær eru nánast horfnar þegar miðgildi launa er náð. Ég vil árétta að það er stefna Samfylkingarinnar sem vonandi verður hrint í framkvæmd af ríkisstjórninni og eins vonast ég til þess að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) skoði vel startlán að norskri fyrirmynd.

Að þessu sögðu þakka ég hæstv. ráðherra umræðuna og öllum þeim sem þátt tóku.