149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

lóðaframboð.

487. mál
[16:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka vel í þessa fyrirspurn. Hún tengist þeirri umræðu sem hefur verið hér í gangi og fjölbreytileika húsnæðismálanna. Það sem ég vildi velta upp við hæstv. ráðherra er staðan á lóðaframboði hjá sveitarfélögum í landinu miðað við spá um íbúðaþörf og hvort sú staða hafi einhver áhrif á fasteignaverðið.

Fasteignaverðið er eitt af því sem skiptir hvað mestu máli núna, eins og í kjarasamningunum, og því hærra sem fasteignaverð er, þeim mun hærri verður fjármagnskostnaðurinn og þeim mun meiri verður greiðslubyrðin og annað slíkt af húsnæðiskostnaðinum. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli. Þess vegna vildi ég ganga út frá tvennu um lóðaframboðið, annars vegar hvort nægar lóðir séu til úthlutunar, þ.e. hvort þeir sem vilja byggja húsnæði geti fengið lóðir til þess og þannig aukið framboð á húsnæði. Aukið framboð hefur að sjálfsögðu áhrif á verðið. Hins vegar skiptir líka máli varðandi lóðaframboð tegund lóðanna sem eru í boði. Eru þetta lóðir sem henta láglaunafólki og tekjuminni hópum? Eru þetta lóðir sem henta ungu fólki sem er að koma út á húsnæðismarkaðinn? Eru þetta þær lóðir sem eftirspurnin er eftir, þar sem þörfin er mest?

Þetta tvennt hef ég grun um að gæti tengst fasteignaverðinu og sé svolítið stórt. Nú eru nýkomnar tillögur frá samráðshópi um húsnæðismálin sem eru margar hverjar góðar og koma að hluta til inn á þetta. Þær fjalla vissulega mest um vandann á höfuðborgarsvæðinu en líka úti um landið. Þess vegna væri svolítið gaman að bera þetta saman og ég spyr hvort ráðherra hafi einhverjar upplýsingar um þetta. Er sýnilegur munur þar sem lóðaframboð er nægt og eftir tegundum íbúðanna?

Svo kemur inn á þetta að það verði að vera til lóðir til að mæta þessum nýja veruleika. Það eru ný gildi og nýjar þarfir. Fólk sækist kannski eftir minna húsnæði og hefur öðruvísi lífsstíl og það þarf að vera hægt að prófa nýjar lausnir líka. Lóðaframboð þarf að bjóða upp á að hægt sé að gera tilraunabyggingar, tilraunahús og annað slíkt.