149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

lóðaframboð.

487. mál
[16:46]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að leggja fram þessa fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir að svara henni hér. Ég fagna því mjög að við tökum þetta stóra mál og bútum það svolítið niður í það sem hefur áhrif á húsnæðismarkaðinn og það er að sjálfsögðu lóðaframboð sveitarfélaganna.

Ég náði ekki að koma öllu að sem ég ætlaði að koma að í ræðunni áðan þannig að ég ætla að nota þetta tækifæri, virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra talaði um að það þyrfti heila nefnd til að skoða hvað væri í pípunum. Við höfum skipað starfshóp eftir starfshóp til að fara yfir það hver staðan raunverulega er á þessum markaði. Hvað er mikið í pípunum? Þetta liggur allt inni í Skipulagsstofnun, hún er með aðalskipulag allra sveitarfélaganna þar sem segir hversu margar íbúðir má byggja á hverju svæði. Skipulagsstofnun er með deiliskipulag á þessum svæðum þar sem segir nákvæmlega hversu margar íbúðir má byggja og af hvaða stærðum. Þessi gögn eru til hjá hinu opinbera en það er ótrúlegt að við getum ekki ýtt á takka í dag og sagt hvað er á áætlun, sagt hvað byggingarfulltrúarnir hafa veitt mörg byggingarleyfi hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu á síðustu mánuðum og af hvaða stærð þær íbúðir eru. (Forseti hringir.)

Ég segi aftur: Hvað er að frétta hjá okkur þegar kemur að rafrænni stjórnsýslu og rafrænni birtingu gagna sem svo sannarlega eru til hjá hinu opinbera?