149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

lóðaframboð.

487. mál
[16:47]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar bara að beina því til hæstv. félagsmálaráðherra — húsnæðismálin eru hjá honum — að t.d. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, fór til Svíþjóðar á dögunum og skoðaði svokallaðar vínrekkablokkir. Þá eru byggðir upp einhvers konar vínrekkar og svo eru einingar sem eru byggðar innan dyra settar inn í. Þetta eru litlar og ódýrar íbúðir.

Það er líka mikil þensla á vinnumarkaðnum á Íslandi og þessir aðilar vilja sjálfir byggja þetta þannig að þeir myndu koma með sitt vinnuafl og það myndi ekki setja meiri þenslu á vinnumarkaðinn á Íslandi þannig að vinnuaflið væri þá til hvað það varðar.

Þetta stenst íslenskar kröfur um gæði og í Svíþjóð var það þannig að þegar það var vandamál og þurfti að byggja upp meira gáfu þeir tímabundið leyfi til að byggja svona. Ef deiliskipulagið stæðist síðan ekki var hægt að taka blokkirnar í sundur, færa þær og byggja annars staðar. Það er hægt að gera það fimm sinnum án þess að þær missi burðarþolið.

Þetta er nokkuð sem væri hægt að gera og ég vil benda á þetta. Mögulega þyrfti að gera lagabreytingu, skipulagsbreytingu eða einhverja reglugerðarbreytingu hjá ráðherra. (Forseti hringir.) Ég vil benda honum á þessa staðreynd. Forseti Íslands hefur víst líka skoðað þessar verksmiðjur.