149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

lóðaframboð.

487. mál
[16:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið þátt í þessari fyrirspurn. Góðu fréttirnar eru þær að lóðaframboð virðist vera nægt en hinar fréttirnar eru að við höfum kannski ekki nægilega miklar upplýsingar um hvaða tegundir eru af lóðum og hvenær þær koma til úthlutunar. Við þurfum að geta haft betri yfirsýn yfir það. Lóðaframboðið er kannski nægt en það er ekki aðgengilegt eins og er og við erum ekki alveg viss hvort það sé akkúrat það lóðaframboð sem vantar.

Til að taka á móti svona lausnum eins og hv. þm. Jón Þór Ólafsson kom inn á rétt áðan er hægt að fá lóð núna til að byggja hagkvæmt húsnæði þó að það sé til bráðabirgða. Einnig er hægt að koma með nýjar lausnir og byggja á núverandi lóðaframboði sem getur þá á fljótvirkan hátt boðið hagkvæmt húsnæði á viðráðanlegu verði. Erum við kannski bara með lóðaframboð núna sem byggist á því að það þarf að fylla upp í eitthvert visst mikið byggingarmagn, það þarf að vera visst mikið af einbýlishúsum og sérbýlum og alls kyns slíku sem svarar kannski ekki akkúrat þörfinni?

Hvað með umræðuna sem hefur verið í fjölmiðlum undanfarið um að það sé allt í einu orðið allt of mikið af lúxusíbúðum? Er þetta lóðaframboð sniðið að þörfum til framtíðar? Það er eitt að vita fjöldann en svo má spyrja um tegundirnar af lóðum. Þær eiga að standa til boða til ársins 2040. Get ég kannski í fyrsta lagi sótt um sumar þeirra árið 2030? Það leysir ekki vandann í dag þannig að við þurfum að hafa þetta allt í huga og fá fleiri upplýsingar.