149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

lóðaframboð.

487. mál
[16:51]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég held að það sé alveg ljóst að stjórnvöld þurfa áfram að hafa tæki og búa sér til tæki til að geta með einhverjum hætti stýrt þessum málum í samstarfi við sveitarfélögin. Við höfum styrkt stöðuna til þess, m.a. í gegnum það að lögfesta það að sveitarfélög eiga að vinna húsnæðisáætlanir þar sem horft sé til þess hvort verið sé að tryggja nægilegt framboð af húsnæði í sveitarfélaginu o.s.frv.

Ég held að það sé líka alveg ljóst að við þurfum að gera miklu betur þegar kemur að því að safna upplýsingum og samræma þau kerfi sem eru í gangi. Við erum að skrá þetta allt saman en við höfum verið dálítið eftir á þegar kemur að því að geta nýtt okkur þetta. Manni finnst sérstakt að á 21. öldinni skuli Samtök iðnaðarins keyra um bæinn og telja grunna til að reyna að átta sig á því hvað er mikið í byggingu þegar, rétt eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir bendir á, þetta er allt saman til í tölvukerfum.

Þarna eru þó jákvæðir hlutir að gerast. Menn hafa verið að þróa núna þessa byggingargátt o.s.frv. til að geta stigið þessi skref. Í átakshópnum sem hefur skilað tillögum sínum er þetta eitt af þeim atriðum sem lögð eru til.

Hv. þm. Jón Þór Ólafsson kom inn á hús sem byggð eru upp og hægt er að fjarlægja. Á fundi sem ég átti með húsnæðismálaráðherra Svíþjóðar heimsótti ég slíkar byggingar og fyrirtæki sem hafa verið að byggja svona hús og síðan samtök sem hafa verið að votta þau. Það kom mér á óvart að sjá hversu verklegar og öflugar byggingar þetta voru og ein tillaga átakshópsins miðar beinlínis að því að íslensk stjórnvöld (Forseti hringir.) aðlagi sitt regluverk þannig að hægt sé að byggja upp með þessum hætti og horft sé þá til nágrannalanda okkar með samræmingar á reglugerðum og lögum hvað það snertir. Það er margt í pípunum en hins vegar er gríðarlega mikilvægt að við vinnum þetta í sátt, bæði á Alþingi og með aðilum vinnumarkaðarins eins og ríkisstjórn hefur lagt upp með.