149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

lóðakostnaður.

488. mál
[16:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegur forseti. Við höldum áfram að fjalla hérna um húsnæðismálin, aðallega húsnæðiskostnaðinn sem ég held að sé stærsti þátturinn í þessu öllu saman sem skiptir hvað mestu máli að sé í lagi. Þess vegna langar mig að velta því upp hvað orsakar það að lóðakostnaður virðist vera breytilegur eftir landsvæðum, hvaða sveitarfélög innheimta t.d. gatnagerðargjald og lóðagjald eða eingöngu gatnagerðargjöld eða bara jafnvel hvorugt. Það virðast vera til dæmi um þetta allt saman. Hvaða áhrif hafa slík gjöld á fasteignaverð og hafa stjórnvöld einhverjar upplýsingar um það?

Samtök iðnaðarins hafa haldið því fram að öll þau gjöld sem sum sveitarfélög virðast leggja á geti hækkað fasteignaverð um allt að 30%. Það eru gjöldin sem sveitarfélögin leggja ofan á sinn kostnað við lóðina. Ég held að það megi bara spyrja sig hvort það sé yfir höfuð löglegt að sveitarfélögin rukki eitthvað umfram gatnagerðargjöldin.

Þá er svolítið skrýtið, að því er mér virðist, að þar sem samlegðaráhrifin í rekstri þeirra sveitarfélaga ættu að vera hvað mest virðast lóðirnar vera hvað dýrastar. Þau hafa mestu tilhneiginguna til að innheimta innviðagjald eða álag á fasteignagjöld eða hvað þessi gjöld öllsömul heita. Ég held að þetta geti haft áhrif eins og Samtök iðnaðarins hafa bent á, að þetta séu allt að 30% af kostnaðinum. Svo koma inn í þetta líka öll leyfagjöldin, leyfaumsóknir, umsýslugjald og annað slíkt. Ég held að þetta ásamt kröfum í byggingarreglugerð um eftirlit og annað geti haft mikil áhrif á fasteignaverð ef þetta torveldar einyrkjum sem eru kannski með litla yfirbyggingu í sinni starfsemi að sækja um lóðir og byggja hagkvæmt húsnæði. Þetta torveldar þeim að koma með nýjar lausnir til að byggja hagkvæmt húsnæði. Þetta torveldar líka fólki sem vill byggja sitt eigið húsnæði af því að það er orðið svo erfitt, bæði að uppfylla allar kröfurnar um eftirlitsaðila, byggingarstjóra og annað slíkt, á sama tíma og fólk þarf að hafa gríðarlega mikið eigið fé áður en það getur byrjað að byggja. Þetta eykur náttúrlega allan fjármagnskostnað og annað slíkt, bara til þess að greiða gjöld til sveitarfélaganna.

Ég held að þetta skipti miklu máli. Þetta er samvinna ríkis og sveitarfélaga og þarna held ég að sveitarfélögin þurfi að koma sterkt að málum.