149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

lóðakostnaður.

488. mál
[16:57]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessar fyrirspurnir. Í fyrsta lagi var spurt hvort lóðakostnaðurinn væri breytilegur eftir landsvæðum. Einfalda svarið við þeirri fyrirspurn er: Já, hann er breytilegur á milli landsvæða. Ráðuneytið hefur ekki ákveðið yfirlit yfir það, það er einfaldlega breytilegt á milli sveitarfélaga hvernig þau verðleggja sínar lóðir, bæði gagnvart gatnagerðargjöldum og eins innviðagjöldum eða öðrum gjöldum.

Í öðru lagi var spurt: Hvaða sveitarfélög innheimta gatnagerðargjald og lóðagjald, eingöngu gatnagerðargjald eða hvorugt? Nær öll sveitarfélög eru með gjaldskrá fyrir gatnagerðargjöld og innheimta þau. Hins vegar hafa mörg sveitarfélög að undanförnu fellt niður tímabundið gatnagerðargjöld að hluta eða að fullu, ýmist fyrir allar tilbúnar lóðir eða hluta, í þeim tilgangi að koma húsbyggingum af stað. Ráðuneytið hefur ekki yfirlit yfir nákvæmlega hvernig þessu er háttað á milli sveitarfélaga.

Í þriðja lagi, og ég ætla að svara þeirri spurningu og taka svo almenna umræðu eftir hana, er spurt hvort slík gjöld hafi áhrif á fasteignaverð. Þar er náttúrlega svarið mjög einfalt líka: Opinber gjöld hafa eðlilega áhrif á byggingarkostnað nýbygginga þar sem þau eru hluti af stofnkostnaði byggingarinnar. Hár byggingarkostnaður, t.d. vegna hárra opinberra gjalda, getur líka gert nýbyggingar óarðbærar og þar með minnkað framboð nýbygginga á markaðnum. Minna framboð af þessum sökum getur síðan haft áhrif á fasteignaverð. Að sama skapi hefur byggingarkostnaður bein áhrif á verð íbúða á vegum byggingaraðila sem selja íbúðir á kostnaðarverði. Þar má t.d. nefna byggingaraðila sem starfa ekki í hagnaðarskyni.

Talsvert hefur verið talað um Bjarg byggingarfélag sem starfar í almenna íbúðakerfinu og er í eigu Alþýðusambands Íslands og BSRB. Við munum væntanlega fara að sjá íbúðir koma til leigu frá þessu félagi í hinum ýmsu sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og eins úti á landi þar sem leiguverð verður mjög breytilegt. Þarna er félag sem starfar ekki í hagnaðarskyni þannig að það er ekki fyrir þær sakir að það sé að greiða sér einhvern arð af einni byggingu umfram aðra. Einfaldlega endurspeglar leiguverðið kostnaðinn við bygginguna. Þegar um há innviðagjöld er að ræða, eins og tíðkast í sumum sveitarfélögum, eða hærri gjöld fyrir lóðir mun það koma mjög glögglega í ljós. Ég verð hissa ef þetta verður ekki umfjöllunarefni fjölmiðla þegar þetta fer að koma betur í ljós.

Hins vegar er alveg ljóst að gjöldin eru breytileg eftir sveitarfélögum og það er það sem mun hafa þessi áhrif og hefur þegar þessi áhrif. Það er engin samræming, hvorki í formi né upphæð þessara gjalda á milli sveitarfélaga. Það er hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett hvernig það hagar sínum málum.

Það er hins vegar alveg ljóst að í mínum huga þarf að eiga sér stað samtal á milli ríkis og sveitarfélaga um einhvers konar samhæfingu og líka gagnvart þeim þætti hvaða magni sveitarfélögin ráðstafa af sínum lóðum til óhagnaðardrifinna félaga eða félaga með félagslegar rætur.

Það sem ég vil segja að lokum til að ramma þetta inn er að við erum ekki með nákvæmt yfirlit yfir hvernig þessu er háttað í öllum sveitarfélögum hringinn í kringum landið, en það er alveg ljóst að þau sveitarfélög sem rukka hærri gjöld fyrir innviðauppbyggingu eða lóðir eða annað sem þau rökstyðja með þeim hætti að sé vegna þess að þau þurfi að byggja upp skóla o.s.frv. — þetta getur ekki farið neitt annað en í fasteignaverðið og getur þar af leiðandi ekki farið neitt annað en í leiguverðið heldur.

Ég held að svörin við þessu séu nokkuð skýr, en ástæða er til að taka umræðu um þetta og beina því kannski til sveitarstjórnarstigsins í heild sinni.