149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

lóðakostnaður.

488. mál
[17:02]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka aftur fyrir þessa fyrirspurn og umræðu hér og finn mig knúna til að deila því með ykkur að ég fór fyrir starfshópi sem kláraði vinnu á síðasta ári um gatnagerðargjaldið og hvernig til hefði tekist og hver væri skoðun sveitarfélaganna hvað gatnagerðargjaldið varðaði. Ástæða þess að sá starfshópur var settur á laggirnar var ekki síst áhugi minn á að skoða hvort ekki væri eðlilegt að innheimt væri gatnagerðargjald á allar nýbyggingar, óháð því hvort þær væru í þéttbýli eða dreifbýli. Í lögunum í dag er það þannig að sveitarfélög mega eingöngu innheimta gatnagerðargjöld þegar um er að ræða byggingu í þéttbýli. Það þýðir að ef viðkomandi er að byggja á svæði sem er skilgreint sem dreifbýli borgar hann ekkert til samfélagsins.

Gatnagerðargjaldið er skattur í dag og á að standa undir almennri tekjuöflun til sveitarfélagsins, t.d. til að standa undir vegagerð. Ég ætla að ímynda mér að sá sem býr í dreifbýli noti jafn mikið vegi sveitarfélagsins og sá sem býr í þéttbýlinu. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé ósanngjarnt þó að ég hafi ekki fengið stuðning Sambands íslenskra sveitarfélaga (Forseti hringir.) við þá skoðun mína. Mig langar að segja miklu meira um þetta mál og þetta er allt of stuttur tími.

(Forseti (BN): Því miður er ekki meiri tími í boði.)