149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

sorpflokkun í sveitarfélögum.

354. mál
[17:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir að koma hér og vera til svara þegar spurt er dálítið umfangsmikillar spurningar. Það eru sorpmálin. Þetta er knýjandi og íþyngjandi málaflokkur fyrir sveitarfélög og okkur öll, vandmeðfarinn, málefni sem eru stöðugt vaxandi í umræðunni um loftslagsmál, umhverfið — og fyrr en varir erum við farin að tala um hlýnun jarðar.

Þessi atriði fléttast saman og meðvitundin er að aukast um þann mikla vanda sem mannkynið allt stendur frammi fyrir. Sumir eru svartsýnir og telja að vonin til að snúa þessari þróun við sé ekki mikil. En við höldum í hana. Einhvers staðar verðum við að byrja og er ekki rétt að huga að því hvernig við högum okkur í eigin ranni, að við hirðum og ræktum okkar eigin garða af ábyrgð?

Ég leyfi mér að fullyrða, herra forseti, að á öllum heimilum í landinu er sorp flokkað með einum eða öðrum hætti, misjafnlega mikið, og dæmi eru um aðdáunarverða frammistöðu. Þessi áhugi spyr ekki um stétt né stöðu og ekki um aldur. Í leikskólum landsins er unnið aðdáunarvert starf varðandi innrætingu ungra nemenda og það þekki ég af eigin raun að ungu börnin hafa vit fyrir fullorðnu fólki að þessu leyti. Og fullorðið fólk hefur áhuga á því að taka þátt í þessu verkefni. Það er nú einhvern veginn þannig að sorpið vekur einhvers konar samkennd. Sorpið sameinar. Enda er sorp samfélagslegt verkefni.

Sum sveitarfélög skara fram úr að þessu leyti og hafa tekið mjög einarða stefnu. En það þarf miklu meira til. Heimurinn allur þarf að taka við sér. Verkefnið er risavaxið. Ríkisstjórnin hefur kynnt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og við ætlum að leggja blátt bann við plasti, plastpokanotkun, í það minnsta.

Allt er þetta gott og blessað en við stöndum á þröskuldi breyttra tíma. Við þurfum að taka okkur á. Það er hugarfarið sem skiptir miklu máli og að orðum fylgi síðan athafnir.

Ég leyfi mér að leggja fimm spurningar fyrir hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi: Telur ráðherra að sorpflokkun í sveitarfélögum sé í ásættanlegu horfi? Í öðru lagi: Í hvaða sveitarfélögum er sorp flokkað? Og í þriðja lagi: Í hvaða sveitarfélögum er boðið upp á moltufrágang eða förgun lífræns úrgangs? Því það er vandi og í mínu sveitarfélagi er þetta t.d. ekki aðgengilegt, sem ég vildi gjarnan að það væri því þetta þarf að vera aðgengilegt fyrir hinn venjulega meðalskussa. (Forseti hringir.) Í fjórða lagi: Hvernig hyggst ráðherra stuðla að betri sorpflokkun? Og í fimmta lagi: Hvernig hyggst ráðherra efla almenningsfræðslu um mikilvægi sorpflokkunar?