149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

sorpflokkun í sveitarfélögum.

354. mál
[17:29]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, sem er mikilvæg. Víst er flokkun mjög mikilvæg og hefur farið mjög vaxandi, sem betur fer. Þar með dregur úr magni úrgangs. Ég hef aftur á móti miklar áhyggjur af því að sá úrgangur sem við neytendur eða heimilin í landinu og fyrirtækin skila fer yfirleitt svona í grunninn, ef ég veit rétt, í tvær áttir: Hann er annaðhvort urðaður eða fluttur til útlanda. Hvort tveggja er ekki mjög umhverfisvænt. Ég hef t.d. miklar áhyggjur af því að ekki sé gætt nógu vel að grunnvatnsáhrifum, þ.e. áhrifum á grunnvatn af mikilli urðun, fyrir utan það sem kom fram áðan í sambandi við metansleppingu.

Mig langar til að vita hvort ráðherra hefur í huga að gera úttekt á t.d. aukinni sorpbrennslu á Íslandi. Það er fyrir ekki svo löngu búið að loka tveimur, þremur sorpbrennslum sem ég man eftir í fljótu bragði sem stóðust ekki kröfur tímans. Spurningin er hvort við ráðum ekki yfir þeirri tækni nú að geta t.d. á köldum svæðum breytt úrgangi í hita og verðmæti.