149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

sorpflokkun í sveitarfélögum.

354. mál
[17:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu efni og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég tek undir með hæstv. ráðherra, ég held að úrgangsmál séu mjög mikilvægur málaflokkur og við ættum að ræða þann flokk oftar hér í þessum sal.

En mig langar að varpa því fram sem ég hef hugsað í allnokkurn tíma — í ljósi mikilvægis þess að hafa samræmdar aðferðir, að við uppfyllum skilyrði okkar í loftslagsmálum og einhver skynsemi sé í því fólgin hvernig við vinnum með úrganginn á þessu tiltölulega stóra landi, en þó fámenna — hvort ekki sé hreinlega tímabært að skoða það að ríkið taki þennan málaflokk yfir, sé ekki bara í því að setja reglur og lög á sveitarfélögin, heldur taki hreinlega þennan málaflokk yfir og láti svo sveitarfélögunum eftir að sjá um nærþjónustu, eins og til að mynda málefni aldraðra eða eitthvað þess háttar. Því að það er allt of oft sem við sjáum í þessum málaflokki að það sé ekki í mínum bakgarði. Það er rifist um hvar á urða, hvar á að brenna, hvernig á að gera það. Og ég held að ef við myndum horfa á landið í heild sinni næðum við miklu meiri árangri hvað úrgangsmálin varðar.