149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

sorpflokkun í sveitarfélögum.

354. mál
[17:32]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa mikilvægu fyrirspurn og ráðherra fyrir ágæt svör.

Það hefur sýnt sig að mikil vitundarvakning og breyting hefur orðið á þessum málum. Þar sem ég þekki best til, á Vopnafirði, hófst fólk handa við flokkun á sorpi áramótin 2010/2011. Fólk tók jólafríið sitt í að venjast þeirri tilhugsun og hvernig fyrirkomulagið ætti að vera á því. Skemmst er frá því að segja að heimilissorp minnkaði um 60%. Það skiptir því gríðarlega miklu máli hvað hver og einn gerir.

En svo við komum að því hvað er úrgangur og úrgangur, það er ekki alltaf það sama. Við lítum það ekki alltaf sömu augum. Það er ágætt að hver sjái um úrganginn t.d. úr sínum garði, en svo erum við að tala um miklu meira. Manni finnst garðúrgangur kannski ekki mikið á móti öllum rúllunum og heyrúlluplastinu. Reyndar er tillaga fyrir þinginu að nýta fyrningar af túnum til landgræðslu, þannig að það eru margar leiðir og engan veginn hægt að fara yfir þetta á einni mínútu.