149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

sorpflokkun í sveitarfélögum.

354. mál
[17:36]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegi forseti. Ég vil aftur þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. Ég held að í allri umræðu um úrgangsmál þurfi að hafa fyrst og fremst í huga að í fyrsta, öðru og þriðja lagi þurfum við að draga úr myndun úrgangs. Það kemur bæði inn á framleiðendur og seljendur vöru og síðan okkur neytendur. Þetta er lykilatriðið.

Það er að hefjast vinna innan ráðuneytisins hjá mér núna á næstu vikum við að skoða heildstætt úrgangsmál á landinu. Taka þarf tillit til margra þeirra þátta sem hérna komu fram og þess vegna fagna ég umræðunni sérstaklega. Ég fæ ákveðið nesti eða fóður til að vinna úr eftir þessa umræðu.

Ég tek undir það að eitt grundvallaratriðið sem kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda er aðgengið, það þarf að vera aðgengilegt að losa sig við úrganginn.

Einnig var nefnt hérna álit mitt á urðun eða því að flytja úrgang til útlanda. Umhverfisfræðingar segja okkur að urðunin sé svona síðasta sort, en það hins vegar að endurvinna, hvort sem það er flutt til útlanda eða ekki, og þess vegna að brenna það, sé betra.

Ég held að úttekt á aukinni sorpbrennslu hérlendis sé eitthvað sem þurfi að skoða núna þegar við förum í þessa vinnu í ráðuneytinu og tek undir með hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur að við þurfum að huga sérstaklega að mengunarbótareglunni sem hún nefndi: Sá borgar sem mengar. Mér finnst sú hugmynd ekki hljóma illa sem hér var nefnd áðan.

Síðan er það kannski grundvallaratriði sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir nefndi áðan, hvort ríkið ætti hreinlega að taka þennan málaflokk yfir. Það er áhugavert inn í umræðuna. Hið minnsta tel ég að það þurfi að samræma betur hvernig við gerum hlutina á landinu öllu.

Ég þakka aftur kærlega fyrir þessa góðu umræðu.