149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

bólusetning ungbarna gegn hlaupabólu.

400. mál
[17:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Hlaupabóla er sjúkdómur sem við könnumst eflaust flest við, ef ekki öll, alla vega af afspurn og mörg okkar af eigin raun, enda er um algengan barnasjúkdóm að ræða. Yfirleitt er um vægan sjúkdóm að ræða, en það er hins vegar þekkt að hann getur, sem betur fer í undantekningartilfellum, engu að síður orðið að alvarlegum sjúkdómi.

Við þekkjum það úr okkar heilbrigðisumhverfi að hér á Íslandi er bólusett við ýmsum öðrum svokölluðum barnasjúkdómum, við eigum því að venjast. En þrátt fyrir að til sé bóluefni sem samkvæmt heimasíðu landlæknisembættisins er bæði mjög virkt og öruggt fellur bólusetning gegn hlaupabólu ekki undir almennar barnabólusetningar hér á landi. Það er þó hægt að fá bóluefnið gegn lyfseðli og því að borgað sé fyrir það og það er hreinlega hægt að finna hvað bóluefnið kostar samkvæmt gjaldskrá. Ég fletti því upp og fann það. Samkvæmt gjaldskrá fyrir árið 2019 sýndist mér skammturinn kosta um 5.600 kr.

Eftir því sem ég kemst næst hefur færst í vöxt á undanförnum árum að foreldrar kjósi að láta bólusetja börn sín gegn hlaupabólu. En mér finnst þetta mál vekja upp ýmsar spurningar um fyrirkomulagið sem við viljum hafa í kringum ungbarnaeftirlitið okkar og bólusetningar.

Mig langar því að beina þeirri spurningu til hæstv. heilbrigðisráðherra hvort fyrirhugað sé að hefja almenna bólusetningu ungbarna gegn hlaupabólu. Ég treysti því að hæstv. ráðherra svari í aðeins lengra máli en bara já eða nei, og eins vil ég velta því upp hver kostnaðurinn við að gera bólusetningu gegn hlaupabólu að hluta af (Forseti hringir.) almennum ungbarnabólusetningum á Ísland. Í síðari spurningu langar mig að eiga aðeins nánari umræðu um þessar bólusetningar.