149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

raddheilsa.

510. mál
[17:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég hef varpað fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um hvort ráðherrann sé mér sammála um að raddheilsa ætti að vera lýðheilsa og hvað við getum gert til að stuðla að góðri raddheilsu sem hluta af slíkri stefnu.

Það er nú svo að hávaði er skilgreindur sem óæskilegt eða skaðlegt hljóð og er talinn einn af stærstu heilbrigðisvandamálum nútímans. Þó að við séum ekki að tala um að hávaði sé lífshættulegur getur hann haft mikil áhrif á heilsu okkar og lífsgæði og áhrifin fara eftir því af hvaða toga hann er, tíðnisviði og styrkleika.

Það hefur verið og er þannig að fjöldi fólks á allt sitt atvinnuöryggi undir því að röddin bregðist því ekki, eins og t.d. kennarar, prestar, sálfræðingar, læknar, fréttamenn, sölumenn og við þingmenn. En enn sem komið er hefur röddin ekki verið viðurkennd sem atvinnutæki og nýtur þar af leiðandi engrar verndar.

Ég ætla að taka helst kennara fyrir vegna þess að það hefur verið skoðað töluvert. Hávaðamælingar í skólum og leikskólum, íþróttahúsum og sundhöllum hér á landi sýna að þessir staðir uppfylla oft ekki kröfur um ómtíma, auk þess sem meðaltal hljóðstigs þar er oft yfir hættumörkum, sem eru í kringum 80–85 desíbel. Kannanir sýna líka að talsverður hluti kennara þjáist af ýmsum álagseinkennum á röddina og þeir eru líka líklegastir til að leita læknis vegna raddvandamála og óþæginda þeim tengdum. Raddvandamál kennara eru þekkt um allan heim. Reyndar er töluvert rætt um að hægt sé að kenna þekkingarleysi um á raddheilsunni og líffærafræði raddarinnar.

Kennarar hafa meira að segja hrökklast úr starfi vegna þess að starfið hefur gengið fram af raddfærum þeirra. Ég þekki þess dæmi úr mínum skóla forðum að kennari varð að taka sér frí.

Í Akureyrarbæ féll dómur til handa íþróttakennara sem verður að teljast kannski tímamótadómur og fordæmisgefandi, því að líta má á hann þannig miðað við að tala um röddina sem atvinnutæki.

En mig langar aðeins að vitna í fundargerð hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem margir komu að og m.a. landlæknisembættið þar sem var talað um að hávaði og hljóðvist í skólum yrði einn af áhersluþáttum heilsueflandi leikskóla og hugað verði að því hvernig mætti koma þessu að í áhersluþáttum bæði leik- og grunnskóla. Þar þurfum við aðeins að huga að því líka — og þetta samtvinnast kannski hjá mörgum ráðherrum — að mælingar á svona erilshávaða eru eiginlega alltaf miðaðar við starfsfólk en ekki við börn, eins og Vinnueftirlitið gerir.

Einnig kom fram á þeim sama fundi gagnrýni á að verkaskipting á milli Vinnueftirlits og heilbrigðisnefnda sé ekki nógu góð.

Virðulegi forseti. Raddbeiting er tæki til að ná til hlustandans og ég held að kominn sé tími á að meta gildi raddar þegar hún er beinlínis leigð út í atvinnuskyni. (Forseti hringir.) Því að hvað ef rödd kennara heyrist ekki og vekur ekki áhuga nemanda? Hvað ef þingmaður talar án sannfæringarkrafts í röddinni, svo ég segi nú ekki meir.