149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

raddheilsa.

510. mál
[17:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina um raddheilsu.

Hv. þingmaður sendi mér spurningar fyrir þessa umræðu og spurði sérstaklega um samspil raddheilsu og lýðheilsu. Því er til að svara út frá formlegri hlið málsins að lýðheilsustefna fyrir Ísland var sett fram á árinu 2016. Þar er sett fram nokkuð víðtæk stefna um ýmsa þætti samfélagsins og þar er m.a. sett fram sú framtíðarsýn að skólakerfið, vinnustaðir, stofnanir o.s.frv. séu heilsueflandi og vinni að því að auka hreyfingu og útivist, eins og það er orðað, bæta mataræði og efla geðrækt landsmanna þar sem slíkt leiði til betri heilsu og vellíðunar.

Þá skuli heilsusjónarmið vera lykilstefið í allri stefnumótunarvinnu sem liður í því að innleiða hugmyndafræði heilsu í allar stefnur.

Í þessari lýðheilsustefnu er ekki fjallað með beinum hætti um raddheilsu en hins vegar er það svo, eins og kom fram í fyrirspurn hv. þingmanns, að embætti landlæknis hefur tekið til skoðunar hvort taka eigi fyrir sérstaklega hljóðvist og raddheilsu í verkefni um heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla. Eftir skoðun embættisins á því fræðsluefni sem gefið hefur verið út hér á landi og skólarnir nú þegar styðja sig við þótti ekki sérstök ástæða til að gefa út frekari leiðbeiningar en þær sem nú þegar eru til.

Hins vegar deili ég þeim vangaveltum með hv. þingmanni að full ástæða er til að við séum enn meira vakandi fyrir þeim þætti. Slæm raddheilsa hjá starfsfólki sem vinnur störf sem krefjast mikillar raddnotkunar er eitthvað sem þarf að líta alvarlegum augum. Oft má rekja hana til lélegrar hljóðvistar eða lélegs hljómburðar, vegna mengunar eða vegna annarra óheppilegra umhverfisþátta.

Í embætti umhverfisráðherra lagði ég áherslu á að skrifaður yrði sérstakur kafli í byggingarreglugerð um hljóðvist, en slíkur kafli var ekki í fyrri byggingarreglugerð, og þá kannski fyrst og fremst til að ná utan um skólastarf og uppeldisstarf. Það er þekkt staðreynd að það er ekki síst kennsla og uppeldisumhverfi þar sem þessir þættir eru krefjandi og þá vil ég sérstaklega nefna aukaálag á list- og verkgreinakennara, íþróttakennara og tónmenntakennara. Þetta eru kennarar sem eru oft að kenna rúllandi hópum yfir allan daginn, nýir og nýir hópar stöðugt, og þó að þeir hafi á stundum minni kennsluskyldu en aðrir er þetta alveg sérstakt viðbótarálag sem er þekkt og þessir hópar fjalla sérstaklega um.

Embætti landlæknis hefur lagt áherslu á að greina alla þætti sem mögulega hafa áhrif á heilsu og þær ástæður sem leiða til þess að fólk þurfi að beita röddinni með þeim hætti að það skaði raddbönd, og eru skaðlegar heilsu þess. Það verður ekki fram hjá því litið.

Með hliðsjón af því — og þó það sé ekki nema bara vegna þessa samhengis orsaka og afleiðingar — er mikilvægt að hlúa sérstaklega að hljóðvist, að hún sé þáttur sem við erum meðvituð um í öllu daglegu umhverfi og ekki síst hjá þeim sem byggja vinnu sína á beitingu raddarinnar. Við þekkjum það sem erum stjórnmálafólk hversu mismunandi aðstæður eru til að ná til hóps, hvort sem það er í litlum sal eða á stórum fundi eða í stórum salarkynnum. Það fer oft og einatt eftir því hver hljóðvistin er og hvernig er með mögnun raddarinnar á hverjum stað o.s.frv.

Ég vil líka sérstaklega nefna þá staðreynd að gríðarlegur hluti af íbúum sérhvers samfélags glímir við einhvers konar heyrnarskerðingu og þarf þess vegna að taka tillit til þess þáttar sérstaklega til viðbótar við þá sem eiga íslensku ekki sem fyrsta mál og þarf þá enn frekar að gæta að því að talað mál komist enn þá betur til skila, það séu ekki brotakennd skilaboð sem komast í gegn.

Þegar kemur almennt að lýðheilsu er mikilvægt að huga að öllum þessum áhrifaþáttum og vinna að því að skapa heilsusamlegt umhverfi, þar með talið þeim þáttum sem hafa áhrif á rödd fólks.