149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

raddheilsa.

510. mál
[18:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef átt því láni að fagna að hitta dr. Valdísi Jónsdóttur og ræða þessi mál. Hún er náttúrlega algjör frumkvöðull á þessu sviði og hefur haldið þessum málum á dagskrá, þ.e. raddheilsunni. Ég held að mikilvægt sé að við öll sem höfum aðgang að þeirri þekkingu sem þar er að finna höldum henni til haga og gætum að því að raddheilsan sé á dagskrá eins og önnur heilsa. Og þau skilyrði sem röddinni eru búin séu á dagskrá eins og önnur skilyrði til lýðheilsu. Það tel ég að sé afar mikilvægt.

Ég vil taka undir það líka sem hv. þingmaður nefnir: Að sumu leyti valda breyttir kennsluhættir auknu álagi eða geta valdið enn þá meira krefjandi aðstæðum fyrir bæði hljóðvist og raddbeitingu og þá sérstaklega þegar við erum að ræða stærri skólastofur, samkennslu eða jafnvel þær kennsluaðstæður að hin hefðbundna skólastofa sem við flest þekkjum sé í raun ekki partur af daglegu lífi nemendanna. Slíkt álag er til viðbótar í kennsluumhverfi þar sem þarf líka að gæta að þeim nemendum sem þurfa sérstakan stuðning og að því að allir fái kennslu við hæfi og fái að njóta krafta sinna.

En ég hef líka séð — og ég vil nefna þar sérstaklega Ingunnarskóla, sem er skóli þar sem var lögð mikil áhersla á hljóðvistina strax við grunnhönnun og alla uppbyggingu skólahúsnæðisins. Það er beinlínis lífsreynsla að koma þar inn í opin rými og upplifa mjög góða hljóðvist þar sem fólk getur talað saman með venjulegri raddbeitingu en náð mjög vel í gegn.

Þetta samspil hljóðvistar og þess að við umgöngumst röddina af virðingu og (Forseti hringir.) umhyggju held ég að sé það sem þarf að eiga sér stað í slíku umhverfi og annars staðar þar sem röddin skiptir máli.