149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Núverandi ríkisstjórn hefur verið ákaflega dugleg í mörgum verkum. Unnið er að ferðamálastefnu í fyrsta skipti, fyrir utan að vísir að henni var kominn í Vegvísinum 2015. Í fyrsta skipti í sögu þjóðar er verið að móta flugstefnu sem starfshópar í samgönguráðuneytinu, þrír, fjórir hópar, vinna að. Á sama tíma kemur fram í ríkisstjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að mótuð verði eigendastefna fyrir Isavia. Það er því unnið á þremur stöðum að mismunandi verkefnum sem snúa að ferðaþjónustunni og fluginu, sem er orðið gríðarlega stórt í umhverfi okkar í heild. Í atvinnuháttum okkar 2017 var ferðaþjónustan stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar sem hlutfall af landsframleiðslu.

Unnið er að því að móta stefnurnar í mismunandi ráðuneytum. Ferðamálastefnan er unnin í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Fyrsti áfangi þeirrar vinnu kláraðist í haust og síðan á verkefnið að fullu og stefnan að klárast í vor. Flugstefna er unnin í samgönguráðuneytinu og reiknað með að hún klárist í vor og mótun eigendastefnu fyrir Isavia er síðan stórt verkefni í fjármálaráðuneytinu.

Ég kalla eftir því við stjórnvöld að ráðuneytin þrjú vinni sameiginlega að því að samþætta stefnu sem snýr að öllum þeim þáttum, þannig að við séum ekki með tvíverknað og það sé sameiginleg stefna með heildarsýn í þeim málaflokkum. Þar tel ég að þessi þrjú verkefni þurfi að koma saman í einni góðri vinnu.