149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Síðar í dag munum við ræða samgönguáætlun til næstu ára. Ég heyrði hv. þm. Þórunni Egilsdóttur segja áðan að stefnan hefði aldrei verið skýrari en einmitt nú og hún væri fullfjármögnuð.

Það er í rauninni furðulegt því að ég veit ekki betur en að leggja eigi aukaskatta á landslýð eina ferðina enn, eina skattpíndustu þjóð veraldar. Það á að skattleggja hana til þess að bæta samgöngukerfið sem er í molum til lengri tíma litið, ástandið hefur verið að byggjast upp.

En hvers vegna? Hvers vegna skyldi þurfa að skattleggja fólkið í landinu eina ferðina enn með þeim álögum sem vegtollar og veggjöld munu verða? Vegna þess að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar hvað varðar almannafé er eins og raun ber vitni, 63% lækkun bankaskatts sem kostar ríkissjóð á árinu 2019 tekjur sem nema um 7 milljörðum kr. ásamt 4,3 milljarða kr. lækkun veiðigjalda, sem nýtist helst stórútgerðum í landinu.

Við erum að tala um 11,3 milljarða kr. sem ríkissjóður verður af á árinu 2019 einungis vegna þessara tveggja aðgerða ríkisstjórnarinnar. Þetta er forgangsröðun á fé almennings.

Eins og venjulega eru það þau sem hafa hvað veikustu stöðuna í samfélaginu og eru að sligast undan þeim klöfum og skattpíningu okurvaxta og verðtrygginga sem á þau eru lögð sem eiga líka að þurfa að borga skatta sem eru ekki í neinum takti við raunveruleikann. Það mætti gera hlutina á allt annan hátt, einungis með því að forgangsraða fjármunum í þágu þeirra sem á þurfa að halda en ekki öfugt.