149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ferðaþjónustan er orðin ein mikilvægasta atvinnugrein landsins og hefur verið drifkraftur hagvaxtarskeiðs þess sem við höfum upplifað á undanförnum árum. Það olli vissulega miklum áhyggjum þegar ljóst var í hversu alvarlegum vanda eitt stærsta flugfélag landsins væri. Þegar tilkynnt var um verulegan niðurskurð á leiðakerfi þess setti vafalítið ugg að fjölmörgum aðilum, ekki síst innan ferðaþjónustunnar sjálfrar. Það var því ákveðinn léttir þegar Isavia birti farþegaspá sína fyrir viku þar sem gert var ráð fyrir að þrátt fyrir þennan mikla niðurskurð í leiðakerfinu yrði aðeins liðlega 2% fækkun í komum erlendra ferðamanna til landsins.

Þessi spá er aðeins vikugömul og gerði m.a. ráð fyrir því að komur erlendra ferðamanna í janúarmánuði yrðu nær óbreyttar á milli ára en í morgun birti Isavia síðan farþegatölur sínar fyrir janúarmánuð og kemur í ljós að samdrátturinn er 6%, ekki 0% eins og vikugömul spá félagsins gerði ráð fyrir. Það gefur auðvitað tilefni til að spyrja: Er eitthvað að marka farþegaspá Isavia? Á sama tíma og spáð var óverulegri breytingu á komum ferðamanna til og frá landinu gerði þessi sama spá ráð fyrir því að farþegum um Keflavíkurflugvöll sem millilentu hér myndi fækka um nærri fimmtung. Það verður því að segjast eins og er að þessi spá virðist frekar byggð á óskhyggju af hálfu félagsins en raunsæju mati á stöðu greinarinnar. Það er auðvitað háalvarlegt að ekki sé hægt að treysta betur á gögn frá ríkisfyrirtækinu sem hefur hvað besta mynd af þróun sem á sér stað í ferðaþjónustunni, um hvers megi vænta þar á næstu misserum, og hefur um leið sýnt takmarkaðan vilja til þess að hleypa öðrum aðilum að þeim gögnum.

Það er gott að tala um mótun ferðamannastefnu til lengri tíma en það er ekki síður mikilvægt að við vitum hvert við stefnum næstu vikur og mánuði.