149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins sagði í viðtali í liðinni viku að nýsköpun væri spretthlaup. Í þessu spretthlaupi þurfa margir þættir að falla saman en mig langar að draga fram tvo þeirra sérstaklega. Í fyrsta lagi þurfum við að búa til hvata sem halda hátæknifyrirtækjum á Íslandi og hvata sem draga starfsemi alþjóðlegra hátæknifyrirtækja til landsins. Það gerum við með afnámi þaks á endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar.

Í öðru lagi verðum við að móta nýsköpunarstefnu í nánu samhengi við atvinnustefnu og ekki síst menntastefnu fyrir Ísland. Þeim til grundvallar þarf að liggja ítarleg færnispá fyrir vinnumarkaðinn til framtíðar. Ég vil því kalla eftir því að ráðherrar nýsköpunarmála og menntamála vinni saman að mótun atvinnustefnu, nýsköpunarstefnu og menntastefnu til framtíðar fyrir Ísland.

Við þurfum nefnilega að byggja upp atvinnulíf þar sem störf byggð á hugviti taka við af störfunum sem byggja á auðlindahagkerfinu.

En hvers vegna er þetta spretthlaup og hvers vegna liggur svona óskaplega mikið á? Það er vegna þess að hluti þeirra sem eru á vinnumarkaði mun missa vinnuna vegna þess að störf þeirra verða sjálfvirknivædd. Það hefur nú þegar gerst með sjálfvirknivæðingu starfa í landvinnslu í sjávarútvegi. Þetta er að gerast með tilraunum með sjálfvirknivæðingu starfa í bankaþjónustu og er ekkert óeðlilegt við það, það er bara allt í lagi. En þetta mun gerast í mun fleiri atvinnugreinum en við gerum okkur grein fyrir og miklu hraðar en við gerum okkur grein fyrir.

Það er því gríðarlega mikilvægt að mótuð verði markviss stefna þar sem horft er sérstaklega til endurmenntunar þess hluta vinnuaflsins sem er að og mun í náinni framtíð missa vinnuna vegna sjálfvirknivæðingar. Ég kalla því eftir mótun sameiginlegrar atvinnustefnu, nýsköpunarstefnu og menntastefnu til framtíðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)