149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U):

Herra forseti. Á Kjalarnesi er hafin söfnun undirskrifta meðal íbúa þar sem lýst er gríðarlegum vonbrigðum yfir því að fjármagn til vegabóta á Vesturlandsvegi um Kjalarnes hafi verið skorið niður í vegáætlun og því fyrirsjáanlegt að óskilgreind seinkun verði á því að vegurinn verði endurbættur. Um leið og mótmælt er harðlega er skorað á samgönguyfirvöld að endurskoða áætlanir sínar og hefja strax undirbúning að breikkun vegarins, aðskilja akstursstefnur, og hefja framkvæmdir án frekari tafa, strax á þessu ári.

Fyrr í dag bárust fréttir um að þessi mistök hafi verið leiðrétt og að framkvæmdahraði muni ekki raskast. Fagna ég því.

Herra forseti. Vegurinn um Kjalarnes er stórhættulegur. Hann er mjór, einbreiður, óupplýstur og í raun handónýtur, sérstaklega vegna djúpra hjólfara sem hafa mælst langt yfir útgefnum öryggismörkum. Slys og óhöpp eru því miður algeng á Kjalarnesi. Vegurinn um Kjalarnes er þriðji fjölfarnasti vegur landsins en samt eina stofnæðin út frá Reykjavík sem ekki hefur verið breikkuð. Vegurinn hefur setið eftir svo áratugum skiptir hvað varðar eðlilegt viðhald og nauðsynlega aðlögun að stóraukinni umferð.

Veðurfar á Kjalarnesi er vindasamt og þar mælast á hverju ári vindhviður sem valda stórhættu fyrir vegfarendur. Við slíkar aðstæður er gott veggrip lykilatriði í öryggi vegfarenda. Fólk er almennt hrætt við að aka veginn um Kjalarnes og skynjar hann sem stórhættulegan og óöruggan.

Herra forseti. Framkvæmdir á Kjalarnesi á Vesturlandsvegi þola enga bið.

(Forseti (GBr): Forseti vill tilkynna að það er einhver truflun á tímaskráningunni.)