149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:45]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að fara yfir nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Ég tek undir orð hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Vonbrigðin eru mikil. Uppsafnaður vandi er öllum ljós, fjárfestingarþörfin í heild 350 milljarðar og það liggur fyrir að þetta er staða vegna pólitískrar ákvörðunar stjórnvalda sem hafa tekið þá ákvörðun að vanrækja algjörlega þann þátt innviða sem er samgöngukerfið.

Hér er talað um að samgönguáætlun sé fullfjármögnuð en mig langar eiginlega að velta upp þeirri mynd að hún sé í rauninni vanfjármögnuð vegna þess að það er ekki farið í þær nauðsynlegu aðgerðir sem þarf að fara í. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann: Er sú staða sem uppi er með það svelta innviðakerfi sem samgöngukerfið okkar er, ekki áfellisdómur yfir stjórnvöldum og fyrri ríkisstjórnum vegna þess hvernig þær hafa hagað málum? Í öðru lagi: (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður það ekki óábyrgt af meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar að(Forseti hringir.) leggja ekki til nauðsynlegar umbætur til að tryggja öryggi vegfarenda?