149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:47]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er leitt að hv. þingmaður hafi ekki gefið sér tíma til að svara spurningum sem að honum var beint. Þá að þeim spurningum sem á eftir koma. Það er varðandi veggjöld á vegum, í göngum og á brúm. Nú langar mig að spyrja hv. þingmann og biðja hann um að svara alveg skýrt: Er ætlun meiri hlutans að leggja á veggjöld í öll göng á Íslandi, hvort sem þau eru tilbúin eða verða gerð í framtíðinni? Erum við þá að tala um Hvalfjarðargöng, Vestfjarðagöng, Múlagöng, Bolungarvíkurgöng?

Við heyrðum hvernig bæjarstjórar bæði í Bolungarvík og Fjarðabyggð töluðu í gær, þeim hugnaðist ekki gjaldtaka í þeim göngum sem þar eru. Það er talað um að hætta innheimtu gjalda þegar upp er greitt og nú er alveg ljóst að Hvalfjarðargöngin eru greidd upp en samt er í farvatninu að leggja aftur gjöld þar. Hvernig fer það saman að tala um orkuskipti (Forseti hringir.) og þess vegna nauðsynlega gjaldtöku og hins vegar að leggja af (Forseti hringir.) gjaldtöku þegar búið er að leggja einhverja vegi? Það væri gott að fá svör við spurningunum, hv. þingmaður.