149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil nota tækifærið og vitna til ræðu hv. þm. Ólafs Ísleifssonar undir störfum þingsins áðan og taka undir með honum um ástandið á þessum vegarkafla á Kjalarnesi og mikilvægi þess að bregðast við. Já, meiri hluti nefndarinnar hafði fengið upplýsingar um að samningar stæðu þannig og staða á hönnun á Kjalarnesi væri með þeim hætti að þrátt fyrir að fjármagnið væri til staðar tækist ekki að fara í þessar framkvæmdir fyrr en áætlað var.

Eftir fund með Vegagerðinni í gær var upplýst að menn gætu farið fyrr af stað við mikilvæga hluta í þessari framkvæmd en þær upplýsingar sem við höfðum áður höfðu gefið til kynna. Var því unnið að lausn þeirrar breytingartillögu sem ég kynnti áðan sem gerir ráð fyrir að fyrsti áfangi þessa verks verði boðinn út á seinni hluta þessa árs. Það er síðan verkefnið sem er hugsað inn í gjaldtökuhugmyndina (Forseti hringir.) og mun auðvitað geta farið á mjög hraða framkvæmd þegar það mál verður afgreitt.