149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans að meiri hluti gesta sem komu fyrir nefndina hafi tekið vel í hugmyndir um gjaldtöku á vegum. Mig langar til að andmæla þeim skilningi. Meiri hluti gesta sem komu fyrir nefndina var samþykkur því að fara í þessar framkvæmdir. Ef nauðsynlega þyrfti veggjöld til, ef það væri eini valmöguleikinn, þá væri það bara þannig. En það eru ýmsir aðrir valmöguleikar í stöðunni.

Mig langar til að spyrja hv. framsögumann um þá fullyrðingu að jafnræðis sé gætt milli landsmanna, þ.e. að hann útskýri aðeins betur hvernig hann kemst að þeirri niðurstöðu að verið sé á einhvern hátt að gæta jafnræðis með því að setja gjaldahlið í kringum höfuðborgarsvæðið.

Að lokum er í fyrri hlutanum talað um veggjöld í samfélagsþágu þar sem umræða um veggjöld eða sérstök notendagjöld sé ekki ný af nálinni. Þá vísa ég í það sem hv. framsögumaður sagði í sérstökum umræðum árið 2011 þar sem vísað var í þáverandi ráðherra Ögmund Jónasson (Forseti hringir.) þar sem hann viðurkenndi í viðtali að um tvísköttun væri að ræða. Við skyldum (Forseti hringir.) ekki fara út í neinar aukaálögur á heimilin í landinu, á bifreiðanotkun heimilanna. (Forseti hringir.)

Er rétt að þá væri um tvísköttun að ræða?

(Forseti (JÞÓ): Forseti vill minna þingmenn á að halda ræðutíma.)