149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[15:39]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tók undir að þetta hefði verið gert í mjög langan tíma. Þess vegna er nauðsynlegt að horfa út fyrir boxið.

Áætlunin er fullfjármögnuð og ekki hafa verið settir í hana jafn miklir fjármunir mjög lengi, sennilega aldrei hlutfallslega, og núverandi ríkisstjórn gerir og meiri hlutinn leggur til.

Þess vegna langar mig að spyrja um þær upphrópanir um að hér sé skyndileg og ótímabær umræða um veggjöld. Hv. þingmaður notaði nánast meira en helminginn af sínum tíma í þá umræðu. Í nefndinni var umræðan látlaus í allt haust. Við ræðum samgönguáætlun þar sem talað er um heimild til útfærslu á veggjöldum sem á síðan að taka til umræðu í þinginu í vor og til 2. umr. í haust.

Hvenær verður sú umræða tímabær og ekki skyndileg? Hún hlýtur að vera akkúrat á réttum stað, enda heyrðist mér hv. þingmaður taka fullan þátt í henni.

Og að lokum þessi spurning: Er hv. þingmaður sammála borgarstjóra og meiri hlutanum í Reykjavíkurborg um að nauðsynlegt sé að leggja á svokölluð borgargjöld (Forseti hringir.) til að standa undir og breyta hegðun fólks, (Forseti hringir.) ýta undir almenningssamgöngur og byggja upp samgöngukerfi borgarinnar?