149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[15:41]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir. Ég verð þó leiðrétta að umræðan um veggjöld var ekki látlaus í allt haust. Umræðan um veggjöld byrjaði skyndilega eftir mánaðamótin nóvember/desember og var ætlunin að keyra þá hugmynd í gegn á einni viku eða svo af því að þinghlé var áætlað 14. desember. Það er því ekki rétt að sú umræða hafi verið í gangi í allt haust.

Vissulega voru gestir spurður að því hvernig þeim litist á álagningu veggjalda á einstaka vegum. En það var ekki alvarlegri umræða en svo að hvorki gestir né nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd áttuðu sig á því að um væri að ræða hina einstöku samgönguáætlun þingmanna Sjálfstæðisflokksins og nefndarmanna Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) í nefndinni. Þeir voru að ræða þá samgönguáætlun, (Forseti hringir.) en ekki þá samgönguáætlun sem hæstv. samgönguráðherra hafði lagt fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. (Forseti hringir.) Aðrir nefndarmenn áttuðu sig ekki á því hvaða umræða var á ferðinni.