149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[15:46]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir seinna andsvar. Við erum að fjalla um samgönguáætlun. Það sem við leggjum til að verði farið í, umfram það sem samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar segir til um, eru þær framkvæmdir sem Vegagerðin telur nauðsynlegt að farið verði í. Þann lista má finna í nefndaráliti minni hlutans en einnig í nefndaráliti meiri hlutans, vegna þess að meiri hlutinn telur það upp sem framkvæmdir sem megi borga með álagningu skatts á almenning í landinu.

Ef við horfum á þær tekjur á síðasta ári, ekki á þessu ári heldur á síðasta ári, sem ríkissjóður fékk vegna notkunar á bílum í formi bifreiðaskatts og bensínskatts eru bara þar, ef við myndum fullnýta það í vegina, 17 milljarðar, hv. þingmaður. Getum við verið (Forseti hringir.) sammála um að á næstu fjórum árum (Forseti hringir.) munum við nota þá fjármuni í þetta verkefni, (Gripið fram í.) sem er algerlega nauðsynlegt? (Gripið fram í.) Við erum að tala (Forseti hringir.) um að við getum gert það auk þess (Forseti hringir.) að hætta við lækkun veiðigjalda o.s.frv., eins og ég var búin að segja áður.