149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[15:48]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að blanda mér aðeins í umræðuna. Það er tvennt til andsvara. Það eru annars vegar loftslagsmál og orkuskipti. Nú er það þannig að öruggara og greiðara flæði umferðar minnkar mengun og svo er það líka þannig að ef það verða veggjöld greiða bensínbílaeigendur eldsneytisgjöld og vegtoll. Rafbílaeigendur greiða engin orkugjöld en vegtoll. Er það þá ekki hvatning til að skipta um bíl?

Hitt sem mig langar að spyrja um er það sem kom fram hjá hæstv. samgönguráðherra. Rætt er um svæðisgjöld, stokkagjöld, mengunargjöld innan Reykjavíkur til þess að geta raunverulega fjármagnað 90 milljarða borgarlínu og stjórnað flæði og minnkað mengun í borginni. Það eru gjöld sem leggjast jafnt á alla. Hver er munurinn á þeim gjöldum og veggjöldum?