149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir seinni spurningu. Varðandi svæðisgjöld, stokkagjöld, tafargjöld og þess háttar, sem eru í umræðunni innan höfuðborgarsvæðisins, verð ég eiginlega að segja að mér brá svolítið að heyra hæstv. ráðherra tala um þau sem tekjulind fyrir ríkissjóð. Maður veltir fyrir sér hvort sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu séu meðvituð um að ríkissjóður ætli sér að leggja það til af sinni hálfu þegar kemur að uppbyggingu borgarlínu.

Svo langar mig að lýsa undrun minni á tölunni sem hv. þingmaður nefndi sem framlag ríkisins í borgarlínu, 7,1 milljarður. Ég átta mig ekki alveg á henni. Ég veit ekki betur en það sé ekki króna í borgarlínu á samgönguáætlun og meiri hlutinn hafi lagt til breytingartillögu (Forseti hringir.) um 800 milljónir.