149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Á árunum eftir hrun, frá árinu 2013 og fram til dagsins í dag má segja, var tekin sú pólitíska ákvörðun að nýta ekki vaxtarskeiðið til að efla innviðina og þar á meðal vegakerfið. Það var pólitísk ákvörðun að lækka skatta á auðmenn, að rétta þeim húsnæðisstyrk sem þurftu ekkert á því að halda í stað þess að fara frekar í innviðauppbyggingu.

Nú talar hv. þingmaður mjög eindregið fyrir því að við segjum við almenning: Viljið þið vegabætur, viljið þið öryggi á vegum? Þá þurfið þið að borga, þá þurfið þið að greiða veggjöld. Finnst hv. þingmanni þetta vera sanngjarnt? Ætti ekki fyrst að nýta skattkerfið og nýta það þá til tekjuöflunar og jöfnunar? Hækka veiðigjöld, fresta lækkun bankaskatta, leggja auðlegðarskatt á þá allra ríkustu? Aðeins þetta (Forseti hringir.) þrennt myndi dekka flýtingu sem nefnd er af meiri hluta samgöngunefndar.