149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:26]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get glatt hv. þingmann með því að skattstefna Samfylkingarinnar er einmitt í þá átt að fjölga skattþrepum þannig að þar eiga Vinstri grænir hauk í horni. Þeir hafa hins vegar ákveðið að vinna með öðrum. Gerðar voru skattkerfisbreytingar sem gáfu 500 kr. umfram lögbundnar hækkanir á persónuafslætti. Hverjir þurfa að borga 500 kr. mörgum sinnum á mánuði í veggjöld til að komast leiðar sinnar? Ef maður les þessar hugmyndir, sem stundum er sagt að búið sé að ákveða og stundum ekki — ég er ekki í þessari nefnd en ég verð mjög rugluð þegar stjórnarliðar eru að útskýra fyrir mér hvernig þetta á að vera. En allir eru þó sammála um að það eru íbúar Suðurkjördæmis sem eiga að bera hitann og þungann, af þessum veggjöldum. (Forseti hringir.) Það er Reykjanesbrautin og Suðurlandsvegurinn. Síðan eru það öll hliðin inn í höfuðborgina. Þetta mun leggjast ójafnt á landsmenn (Forseti hringir.) og þetta er ósanngjarn skattur á almenning að fyrirmynd Sjálfstæðismanna, sem ég er mjög hissa á að hv. þingmaður skuli vera svo innblásinn af.