149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir prýðisgóða ræðu hans hér áðan. Það eru tvö atriði sem mig langar til að koma inn á varðandi ræðu hv. þingmanns. Annars vegar vil ég lýsa ánægju minni með nálgun hans á það að vegfarendur nytu vissulega einhvers ábata af þeim framkvæmdum sem gengið verður til, hvort sem það er á grundvelli þess sem fjármagnað er með þeim peningum sem áður voru áætlaðir til samgönguáætlunar eða viðbótarfjármunum sem gætu fengist með vel útfærðu flýtiteknafrumvarpi, ef má orða það þannig.

Hins vegar langar mig að spyrja hv. þingmann um það sem hefur nokkuð komið fram hjá fyrri ræðumönnum hér, að veggjöld hafi lítið verið rædd fyrr en í desember. Það er ekki upplifun mín af umræðunum í nefndinni og spurning hvort hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson deili þeirri skoðun minni að umræður um veggjöld hafi komið til (Forseti hringir.) mun fyrr en við mánaðamótin nóvember/desember.