149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:38]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er aulagangur af þeim sem hér stendur að hafa ekki verið búinn að fletta því upp hvenær sérstök umræða átti sér stað í nefndinni en ég veit tryggilega að það var fyrir mánaðamótin nóvember/desember — ákveðinna hluta vegna.

Ég vil fá að bæta við spurningu til hv. þingmanns sem mér þykir skipta máli vegna ræðu hans áðan. Hún snýr að samanburði á útblæstri frá farþegaflugvél við útblástur hjá þeim sem ferðast á eigin bíl, einn til tveir saman eins og algengast er eins og við þekkjum. Mér þóttu þetta áhugaverðar upplýsingar og ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki skoðað þetta sérstaklega en er ánægður með að heyra að innanlandsflugið standist þessi viðmið ágætlega.