149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:00]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Já, nú get ég ekki gert mikið í því á tveimur mínútum ef hæstv. samgönguráðherra sér ekki muninn á því að ræða veggjöld sem mögulegt innlegg í vinnu og því að boða frumvarp um breytta fjármögnun í samgöngumálum í mars, sem er mögulega vísbending um að það sé þá sem málið eigi að ræðast, og síðan hinu, að kollvarpa með viðbótarskattlagningu, eins og ég fór yfir áðan, nálgun í samgöngumálum á þéttbýlissvæðinu, í höfuðborginni. Í því liggur munurinn og ég hef margoft frá því að málið kom upp lýst því yfir að það sé rétt að ræða þetta.

Ég hef jafnframt farið yfir það í máli mínu nokkuð ítarlega af hverju ég tel að sú aðferðafræði sem notuð er sé ekki rétt og svo því að ég vona að við náum sameiginlegri niðurstöðu í þetta mál vegna þess að það þarf eitthvað að koma til. Þetta er ein leiðin, að gera þetta svona bratt, eins og menn hafa talað um hér, veggjöld á allar stofnleiðir með þessum hraða og taka í þokkabót fjármagn úr samgönguáætlun, (Forseti hringir.) þessari fullfjármögnuðu eins og sem hæstv. ráðherra nefndi, og setja í eitthvert annað. Ég hef ekki nokkurn tímann kvittað upp á það. Ég kem að því hvað hefur breyst síðar.