149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:12]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Það auðveldar mér mjög að skilja hvað hv. þingmaður er að fara, en hins vegar er ég algjörlega ósammála vegna þess að það hefur ekki verið hreyft við þessum framkvæmdum. Meiri hlutinn hefur ekki lagt fram neina tillögu um það. Hins vegar segir meiri hlutinn: Það er ekki ásættanlegt að fara í þessar framkvæmdir á þeim hraða sem fyrir liggur miðað við þá samgönguáætlun sem lögð fram. Þess vegna þurfum við að finna leiðir til að flýta þeim.

Þá langar mig að snúa mér að öðru. Lítur hv. þingmaður á samgöngukerfið sem eina heild? Ég hef haft tilhneigingu til að líta á það sem eina heild, hvort sem það er í umsjá ríkisins eða sveitarfélaga, en lykilatriðið er að við horfum á það sem eina heild. Svo ætla ég að lokum að koma aðeins inn á það sem ég ætlaði að nefna í upphafi, að ég gleðst yfir því sem kom fram í máli hv. þingmanns um ákveðna hluti sem við erum sammála um þar sem hún tók undir forgangsröðun í áliti meiri hlutans.