149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:20]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka framsögumanni málsins, hv. þm. Jóni Gunnarssyni, fyrir framsögu hans hér í upphafi þessarar umræðu. — [Tveir þingmenn taka sér stöðu hjá ræðupúlti með húfur sem á stendur FO.] Ég er á þessu nefndaráliti þannig að ég leyfi mér að segja að í meginatriðum komi þau sjónarmið sem ég stend fyrir fram í nefndarálitinu. Ég tek undir þau, vil taka það sérstaklega fram.

Ég vil byrja á að reyna að ramma inn og setja í samhengi hvaða skilaboð voru send út til þjóðarinnar með framlagningu samgönguáætlunar samgönguráðherra hér í byrjun haustþings. Það var m.a., má segja, að Reykjanesbrautin yrði ekki kláruð fyrr en eftir 15–20 ár. Suðurlandsvegurinn til Selfoss yrði ekki kláraður fyrr en eftir 15–20 ár. Vesturlandsvegurinn upp í Borgarnes yrði ekki kláraður fyrr en eftir 15–20 ár.

Ég held að við sem hér erum inni getum öll verið sammála um að þau skilaboð voru engum boðleg. Í því felst engin gagnrýni á hæstv. samgönguráðherra. Samgönguráðherra var sniðinn þessi stakkur með fjármálaáætlun sem var samþykkt hér á síðasta vorþingi, ef ég man rétt í fyrstu viku júní 2018. Umræðan sem er í gangi í dag endurspeglar að nokkru marki það sem ég leyfi mér að kalla áhugaleysi sem samgöngumál líða oft fyrir.

Ég gerði nokkra könnun á því — hún var ekki nægjanlega djúp, mér gafst ekki tími til þess — hversu margir þingmenn hefðu haft áhyggjur af fjárveitingum til samgöngumála og uppbyggingar samgöngukerfisins þegar verið var að vinna þessa fjármálaáætlun og ræða hana. Þeir voru ekki margir. Ég hélt það sem ég taldi sjálfur innblásna ræðu um mikilvægi þess að bæta í fjárveitingarnar en það voru sáralítil viðbrögð. Þetta er upplifunin sem ég hef haft af umræðu um samgöngumál allt of lengi.

Ég verð þó að segja að hv. þm. Jón Gunnarsson hefur haft mikinn áhuga á þessum málum, en hann er 1. varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar, og hv. þm. Vilhjálmur Árnason má eiga það að í hvert skipti, leyfi ég mér að segja, sem hann kemur hér upp, sama hvert málefnið er, talar hann um ástandið á vegakerfi landsins sem almannavarnaáhættu og það er auðvitað þannig með öll þau slys sem verða á þjóðvegunum og það niðurbrot vegakerfisins sem við höfum upplifað á síðustu árum.

Nú er ég búinn að fara yfir það andrúmsloft sem samgöngumálin mæta gegnumgangandi í umræðum hér á þingi. Það er auðvitað ágætt að þessi umræða vakni upp í kringum afgreiðslu samgönguáætlunar en persónulega þætti mér miklu betra ef umræðan og áhuginn væri jafnari og skilningur á nauðsyn fjárveitinga stöðugri. Því staðreyndin er sú — aftur: úttekt mín var kannski ekki vísindaleg og ég skoðaði ekki hverja ræðu í grunninn — að ég hef ekki séð hv. þingmenn, sem segja að nú skuli bara ganga til þess verks að framkvæma öll þau brýnu verkefni sem tilgreind eru í meirihlutaálitinu og fjármagna það úr ríkissjóði, tala fyrir því hingað til að það sé sjálfsagt mál og einfalt og þurfi að ganga í að finna þeim verkefnum stað hvað fjármögnun varðar innan úr ríkissjóði. Það er áhugavert og ágætt að þetta komi fram núna. En það hefur ekki gert það á fyrri stigum, sannarlega ekki.

Við erum með gríðarlegan uppsafnaðan vanda í samgöngukerfinu. Það má segja að það sé svolítið eftir því hvernig talið er, en ég held að heildartalan, heildarvandamálið ef svo má segja, liggi á bilinu 200–350 milljarðar í uppsafnaðri nýframkvæmdaþörf og uppsafnaðri viðhaldsþörf. Við sem hér erum inni þekkjum auðvitað öll að viðhaldið hefur verið látið sitja á hakanum mjög rækilega undanfarinn rúman áratug. Við þekkjum auðvitað ástæður þess að hluta til. En ég held að því miður hafi þær svo sem ekki haldið allan þennan tíma. Ég leyfi mér að vísa í áhugaleysi, því miður — það er best að segja hlutina bara eins og þeir eru, a.m.k. eins og ég upplifi þá. Það er gegnumgangandi áhugaleysi á fjárveitingum til samgöngumála þegar kemur að umræðu um skiptingu ríkisfjármuna.

Ég ætla aðeins að fara aftur í skilaboðin sem voru send í samgönguáætluninni sem var lögð fram í byrjun haustþings af samgönguráðherra. Ég er búinn að fara í gegnum þann tímaramma sem upplýst var um og sýn ríkisstjórnarinnar. Að því er virtist hefði verið ásættanlegt að Reykjanesbrautin yrði ekki kláruð, Suðurlandsvegurinn ekki kláraður og Vesturlandsvegurinn ekki kláraður. En það er bara svo miklu meira en þetta. Umræðan í dag hefur að mestu leyti spunnist um þessar stofnæðar inn til höfuðborgarinnar en við erum að tala um að þessi áætlun — og aftur: Í þessu felst ekki gagnrýni á það hvernig samgönguráðherra raðaði niður þeim takmörkuðu fjárveitingum sem honum voru veittar í fjármálaáætlun. En verkefnin sem voru eftir: Menn horfðu fram á það að Vestfirðingar væru enn á stofnbrautavegum, sem væru malarvegir og mætti jafnvel túlka sem moldarvegi á köflum, eftir 15–20 ár. Ástandið er þannig á ýmsum vegum vestur á fjörðum að flutningabílstjórar þurfa að setja keðjur á bílana hjá sér að sumri til ef það rignir svo að þeir renni ekki niður drullubrekkurnar. Það er auðvitað ekki boðlegt ástand. Þetta er alveg galið. Ég leyfi mér að fullyrða að ekki nokkur þingmaður hefði leyft sér að samþykkja samgönguáætlunina eins og hún var lögð fram hér í haust. Það hefði alltaf orðið einhvers lags átak.

Ein af þeim leiðum, og sú sem er fremst í þessari vinnu, er útfærsla sem snýr að því að innleiða kerfi hóflegra veggjalda til að spýta mjög rækilega í lófana. Í því samhengi hef ég alltaf haldið því til haga, og ég held að ég leyfi mér að segja mjög margir aðrir — og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason er með fyrirvara á nefndaráliti meiri hlutans, sem segir efnislega að menn verði auðvitað, og þessarar skoðunar er ég, að stíga til baka með þessa almennu gjaldtöku á umferð. Ég leyfi mér að fullyrða að enginn hafi haldið fleiri ræður í þessum sal síðan ég kom inn á þing en ég um það að ökumenn landsins og umferð almennt er skattpíndur póstur. Þrátt fyrir að við tökum virðisauka algjörlega út úr myndinni, ef við horfum á þær skatttekjur sem ríkið hefur af ökutækjum og umferð, fer innan við helmingur til uppbyggingar og viðhalds vegakerfisins. Þerra er auðvitað ákvörðun. Þetta gerðist ekki bara í einu vetfangi. Þetta hefur þróast með þessum hætti yfir langt tímabil.

Ég hefði orðið fyrstur manna til að segja: Heyrðu flott, semjum bara um það að allar skatttekjur af ökutækjum og umferð fari til vegakerfisins og samgöngukerfisins í fimm ár, tíu ár. Þá náum við í skottið á okkur viðhaldslega. Við getum byggt upp þær stórframkvæmdir sem nauðsynlegt er að grípa til og við getum komið tengi- og safnvegum í forsvaranlegt ástand á sama tíma og við styðjum við innanlandsflugið og almenningssamgöngur þar sem það er nauðsynlegt.

En það er bara engin stemning fyrir þessu hér inni. Við sáum það bara í frágangi — ég sé að hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson setur upp svip sem ég veit að ég yrði ánægður með í svona umræðum. En þegar ég tala um að það sé ekki stemning fyrir þessu leyfi ég mér að fullyrða að við fengjum ekki meiri hluta í þingsal fyrir slíkum tillögum þó að ég væri fylgjandi þeim. Þá erum við á þeim stað að við verðum að leita lausna. Við erum þannig í sveit sett hvað þetta varðar að veggjöldin sem lagt er upp með í þessu meirihlutaáliti eru útfærsla sem getur leyst stóran hluta þess vanda sem við stöndum frammi fyrir. En það eru líka fleiri kostir sem koma til skoðunar þegar þetta frumvarp hæstv. samgönguráðherra kemur hér inn í mars eða apríl eða hvenær sem það kemur, nú á vorþinginu.

Ég og hv. þm. Sjálfstæðisflokksins Óli Björn Kárason höfum talað fyrir því að eignasala ríkisins gæti gengið inn í fyrirtæki eins og þetta, sem stofnfjár- eða eiginfjárframlag eftir því hvernig litið er á það. Ég skildi minnihlutaálit nefndarinnar þannig — hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson leiðréttir mig ef ég er að misskilja það — en í minnihlutaálitinu, á bls. 2 undir Öryggismálum, þar sem talað er um þann sparnað sem náðst geti fram með því að koma vegakerfinu á þann stað sem við erum að horfa til í þessum tilvikum, segir m.a., eftir umræðu um mögulegar fjármögnunarleiðir, með leyfi forseta:

„… eða einfaldlega með því að taka tillit til þjóðhagslegs ábata þeirra framkvæmda sem um ræðir. Ábatinn mun, samkvæmt bráðabirgðatölum, borga upp framkvæmdirnar á innan við áratug …“

Þessu er ég alveg sammála. Ég ætla að leyfa mér að lesa inn í það sem hv. þingmenn sem eru á áliti minni hlutans eru að segja þarna: Þetta er útfærsla af skuggagjöldum sem þýðir í raun að tekið er tillit til þess í öðrum fjárveitingum ríkisins að sparnaður náist fram með þessum hætti. Það væri þá nærtækast að þessar fjárveitingar gengju inn til þess opinbera félags sem héldi á framkvæmdunum með fjárveitingum, annaðhvort úr almannatryggingakerfinu eða heilbrigðiskerfinu, þ.e. sparnaðurinn kæmi fram þar. En af því að við búum nú öll í raunheimum þá er ólíklegt að það verði niðurstaðan. Það er ólíklegt að fólk almennt gúteri það að fjárveitingar til almannatryggingakerfis eða heilbrigðiskerfis verði dregnar saman um einhverja par milljarða á ári, þó að auðveldlega sé hægt að sýna fram á að sparnaðurinn komi fram þar af þessum stórbættu vegtengingum, sérstaklega hér í námunda við höfuðborgina.

En ég vildi bara segja þetta til að menn hefðu í huga að hún kemur úr mörgum áttum, sú hagræðing og sá sparnaður sem næst. Það er tekjuskapandi að ganga til þessara verkefna. Fremst í röðinni í mínum huga er auðvitað nauðsyn þess að komast af stað, bara skipta um takt hvað nýframkvæmdir varðar, skipta algjörlega um takt. Því að það sem var lagt upp með í fimm ára fjármálaáætluninni, þar sem áætlað var að 13,5 milljarðar færu til nýframkvæmda fyrstu þrjú árin og síðan 7,8 á ári fjögur og fimm, er fjarri því að vera nægjanlegt og ég ætla ekki að endurtaka ræðurnar sem ég hef haldið um það. Til viðbótar við það stórbætta umferðarflæði og aukna öryggi hér á suðvesturhorninu sem ávinnst með þessu hangir margt annað á spýtunni hvað framkvæmdir varðar.

Ég ætla að leyfa mér að lesa hér upp, með leyfi forseta, þá vegarkafla sem meiri hluti nefndarinnar sér ástæðu til að tilgreina sem vegarkafla þar sem svigrúm mun myndast til að fara mun fyrr í framkvæmdir en annars hefði verið. Sums staðar eru rökin þau að skólabörn skoppi um í skólabílum daginn út og daginn inn. Ég leyfi mér að nefna Vatnsnesveginn í því samhengi. En á bls. 7 í nefndarálitinu er talað um að helst megi nefna, með leyfi forseta:

„… Skógarstrandarveg, Laxárdalsveg, Vatnsnesveg, Jökuldalsveg, Gilsá–Arnórsstaðamúla, breytta legu vegar við Hrafnagil í Eyjafirði, Garðskagaveg, Garður–Sandgerði, Þingvallaveg, Skógarhóla, veg um Borgarnes og Innstrandaveg.“

Þetta eru svona nokkrir vegir þar sem svigrúm skapast, hafi þingið, ef svo má segja, kjark til þess að stíga þetta skref núna, sem ég held að yrði gæfuspor. Síðan nefnum við jafnframt tvo staði þar sem við teljum að svigrúm skapist til að bæta aðkomu verulega í því sem myndu teljast brothættar byggðir.

Með leyfi forseta leggur meiri hlutinn til:

„…að flýtt verði sérstaklega framkvæmdum í þágu tveggja jaðarsvæða, þ.e. Árneshrepps á Ströndum og Langanesbyggðar á norðausturhorninu, með vegi um Veiðileysuháls annars vegar og endurbætur á vegi um Langanesströnd ásamt uppbyggingu vegar um Brekknaheiði hins vegar.“

Þetta eru mál sem skipta gríðarlegu máli fyrir þau svæði sem þarna eru og við hér inni vitum að til þessara framkvæmda verður ekki gengið á forsendum umferðartalna eða neins þess háttar. Það er bara pólitísk ákvörðun að styðja við þessi svæði en hún verður ekki tekin nema fjármunir séu til staðar til að ganga til verksins.

Mig langar aðeins, í þessari fyrstu ræðu minni, að koma inn á umræður í nefndinni og það hvernig gjaldaumræðan snýr að mér. Það er mikill misskilningur í umræðunni að við séum í þessari umræðu að klára útfærslu á veggjöldunum, það er ekki þannig. Við erum að opna á — þetta er prinsippákvörðun — annars konar fjármögnun en fjármögnun úr ríkissjóði og hún er þeirrar gerðar að hún þarf að eiga sér stað fyrst. Síðan kemur útfærslan á þessu sem þarf að eiga sér stað í góðri sátt og samvinnu. Ja, ég er kannski of bjartsýnn að tala um góða sátt, menn geta örugglega haft mismunandi skoðanir á þessu, en alla vega í góðri samvinnu hér innan þingsins. Inn í þá umræðu koma auðvitað hlutir eins og hvort rétt sé að umbreyta eignum sem ríkið á í dag í innviðafjárfestingu, hvort við ættum, eins og ég skil hv. þingmenn sem eru á minnihlutaálitinu, að horfa til þess að útfæra skuggagjaldaleið á grundvelli þess hagræðis og þess sparnaðar sem næst fram með þessari nýju nálgun. Sú vinna er eftir.

Umræða um veggjöld hefur lengi verið í gangi. Hún var í gangi þegar sá sem hér stendur var aðstoðarmaður samgönguráðherra 2003–2006 og hún hefur verið í gangi, held ég, alla tíð síðan. Framsögumaður meirihlutaálitsins, hv. þm. Jón Gunnarsson, nefndi hér áðan að fyrrverandi hæstv. ráðherra, Kristján Möller, hefði verið með þessa vinnu í gangi þegar hann var samgönguráðherra á tímabilinu 2007–2009. Þetta hefur því verið gegnumgangandi umræða lengi, hvernig best verði á þessu haldið. Ég held að það sem skipti mestu máli sé að notendur vegakerfisins finni sig ekki í þeirri stöðu að þessi veggjöld, verði þau niðurstaðan, og þá útfærð með skynsamlegum hætti, verði hrein viðbótargjaldtaka. Ég held að við þurfum að horfa til þess að lækka á móti almennu gjaldtökuna, almennu skattlagninguna á umferðina, því að hún er gríðarlega mikil. Sérstaklega bítur hún hjá þeim sem þurfa að nota samgöngukerfið mikið.

Af því að hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson horfir nú á mig er það auðvitað þannig að kostnaðurinn — hv. þingmaður kom hér inn á það áðan að hún teldi að hærra hlutfalli tekna sem af þessu kæmi yrði varið úti á landi en hér á höfuðborgarsvæðinu. (Gripið fram í.) Já, en það er auðvitað þannig að landsbyggðin ber töluverðan kostnað, umtalsverðan, af því að sækja alla miðlæga þjónustu sem er byggð upp hér á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf því að horfa á þetta heildstætt og ég held að við verðum ekki í neinum vandræðum með að vinna það áfram í nefndinni.

Það eru nokkur atriði til viðbótar sem mig langar að nefna. Tíminn fer að styttast í annan endann hjá mér og ég reiknaði með að taka fleiri þætti í næstu ræðu. En ég vil bara örsnöggt hér í lokin lýsa yfir mikilli ánægju minni með flugkafla þessa nefndarálits. Flugmálin hafa á köflum verið, afsakið orðalagið, utanveltu í þessum efnum. Áhuginn hefur legið á vegamálunum þegar hann hefur vaknað. Ég held að þetta nefndarálit dragi fram mikilvægi flugsins, byggt á ágætri skýrslu sem stýrirhópur sem hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson var formaður fyrir vann; og aftur umræða um styrkingu innanlandsflugsins og fleira slíkt. Ég held að þetta álit meiri hlutans og sú breyting sem verður á samgönguáætluninni með því eigi eftir að verða fluginu, sérstaklega innanlandsfluginu, mjög til góðs og ég vil lýsa yfir sérstakri ánægju minni með það.

Þá ætla ég, til að gleðja hæstv. forseta, að ljúka ræðu minni hér.