Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:44]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Aðeins á sömu nótum: Það kom skýrt og vel fram í ræðu hv. þingmanns mikilvægi þess að við sem hér erum horfum á allt landið sem heild og tökum tillit til mismunandi þarfa og mismunandi stöðu. Það er það sem er verið að reyna að gera. Síðan bera menn kannski hagsmuni mismunandi aðila misjafnlega mikið fyrir brjósti, en það er eins og gengur og gerist.

Mér þætti áhugavert að heyra sjónarmið hv. þingmanns. Við höfum tekist á um hvort þetta séu veggjöld, þ.e. notendagjöld, eða skattlagning. Ég hef í máli mínu fært rök fyrir því að um skattlagningu sé að ræða ef búið er þannig um hnútana, ef það verður niðurstaðan, að allar stofnleiðirnar þrjár verði fjármagnaðar með veggjöldum þannig að menn komist hvorki lönd né strönd inn eða út úr borginni án þess að greiða, ekki séu aðrar leiðir færar, og á sama tíma sé dregið úr hlutfalli skatttekna af ökutækjum inn í þetta sama svæði.

Mig langar í alvöru að fá að heyra álit hv. þingmanns á því. Þetta er eitt af því sem menn bítast um.