149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Ég hef litið þannig á að umræðan um að önnur leið þurfi nauðsynlega að vera til staðar sé á nokkrum misskilningi byggð. Ég hélt ræðu í fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra, ef ég man rétt, fyrir einhverjum mánuðum síðan þar sem ég fór yfir að ég teldi skilgreininguna á því alltaf lenda á villigötum. Farið var á ökutækjum til Hafnar í Hornafirði áður en hringvegurinn var kláraður. Það er alltaf önnur leið. Hver ætlar að draga línuna? Hversu margir kílómetrar þurfa að vera undir til að önnur leið sé til? Fyrir þá sem búa á Akranesi t.d og vinna í Reykjavík er ekki valkostur um aðra leið að keyra Hvalfjörðinn á hverjum degi með því takmarkaða viðhaldi sem hann hefur notið og þeirrar takmörkuðu vetrarþjónustu sem þar er yfir hörðustu vetrarmánuðina. Það (Forseti hringir.) eru mjög fáir sem komu inn á þetta (Forseti hringir.) á nefndarfundum. Ég held að þetta sé ekki lykilatriði.