149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég var einmitt að reyna í ræðu minni að útskýra m.a. þá kerfisbreytingu sem er horft til í þessari vinnu. Eins og ég kom jafnframt inn á þá entist mér ekki tími til að fara yfir flugmálin, ég geri það í næstu ræðu minni. Ég hef auðvitað mikinn áhuga á þeim, en 20 mínúturnar eru fljótar að líða.

Ég gæti auðvitað komið einhvern útúrsnúningsbrandara núna um að þessari ríkisstjórn, sem oft er sagt að gangi fyrst og fremst út á það að verja stólana og sé lítt áhugasöm um breytingar, hafi loksins tekist þetta undir formennsku Miðflokksmanns í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég sé að þingmaðurinn er ánægður með þetta svar.

En hvað spurninguna varðar þá er þetta sannarlega kerfisbreyting. Það sem er mikilvægast er að hér erum við flestöll inni að því er virðist sammála um að það þurfi að gera mikið átak í samgöngumálunum. Síðan er ég, (Forseti hringir.) eins og ég lýsti yfir í ræðu minni áðan, mjög ánægður með þá (Forseti hringir.) vinnu og þá afstöðu sem liggur fyrir í tengslum við umhverfi flugsins.