149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:56]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Því er auðvitað fljótt til að svara, það að vera í 12–14 tíma frá Reykjavík til Egilsstaða og hvað sagði hv. þingmaður, níu tíma til Akureyrar? (NTF: 7 og 15.) Það eru auðvitað almenningssamgöngur sem fæstir sætta sig við, svo ég orði það varlega. Það er auðvitað eitt af markmiðum samgönguáætlunar og hefur verið það alveg síðan 2005, held ég að það sé, ég gæti þurft að leiðrétta það ártal en ekki um mörg ár, að fólk eigi að eiga þess kost að komast til höfuðborgarinnar þar sem öll miðlæg þjónusta er byggð upp á 3,5 tímum með mismunandi samgöngumátum. Það byrjar á að keyra, t.d. þeir sem fljúga frá Egilsstöðum, keyra einhvers staðar af fjörðunum upp á Egilsstaði, fljúga til Reykjavíkur og það er miðað við að þessi tími sé að hámarki 3,5 klukkustundir. Almenningssamgöngur þar sem það tekur (Forseti hringir.) 12–14 tíma að komast landið á enda með strætó eða rútu, er auðvitað eitthvað sem fæstir sætta sig við.