149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þetta sé hárrétt hjá hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni, það eru þó ákveðin takmörk fyrir því hversu skýrt er hægt að tala bara út af því að frumvarpið, sem ætlað er að ramma þetta inn, kemur ekki fram fyrr en í mars ef það tímaviðmið er notað sem hæstv. samgönguráðherra kom fram með fyrr í dag og hefur svo sem verið kynnt umhverfis- og samgöngunefnd þannig að við miðum við það.

Ég get sagt fyrir sjálfan mig að nú hef ég keyrt árum saman um Hvalfjarðargöng og það fyrirtæki sem ég var framkvæmdastjóri fyrir áður borgaði drjúgan vegskatt þar í gegn eða gjald. Menn verða að upplifa að hagurinn af þessu sé umtalsverður. Í þessu samhengi er það bæði tímasparnaður, eldsneytissparnaður, öruggari vegir og betra flæði þannig að það er margþætt, en lykilatriðið er að menn upplifi ekki að þetta sé hrein viðbótargjaldtaka ofan á þegar mjög skattpíndan hóp ökumanna.