149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:03]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem upp til að bera af mér sakir. Hv. þingmenn hafa kosið að fara í einhvern sérkennilegan leiðangur, annars vegar að væna þá sem hér stendur um að sofa á nefndarfundum svo að eftir er tekið í málgagni hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem og að hafa ekki fylgst með á fundum í allt haust þegar hin nýja samgönguáætlun Jóns Gunnarssonar og félaga var kynnt í nefndinni í byrjun október.

Sú sem hér stendur ritar fundargerð mjög ítarlega á hverjum fundi en hangir ekki í símanum, öfugt við suma þingmenn, eða dottar, eins og aðrir þingmenn án þess að maður nefni nein nöfn. Vil ég því bera þær sakir af mér að ég hafi annars vegar sofið og hins vegar ekki tekið eftir þegar hin mjög svo sjálfstæða samgönguáætlun hv. þm. Vilhjálms Árnasonar og hv. þm. Jóns Gunnarssonar var kynnt í nefndinni þann 20. nóvember sl.