149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:10]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þegar hv. þingmenn eru farnir að koma hér og tala um að aðrir séu með dylgjur um þá eða að segja ósatt finn ég mig knúinn til að mótmæla því að í hv. umhverfis- og samgöngunefnd hafi verið rædd einhver önnur samgönguáætlun en við ræðum hér í dag. Ég sé hvergi þingskjal um aðra samgönguáætlun. Það eru engin þingskjöl til um það. Ég kannast ekki við að hafa lagt fram neina aðra samgönguáætlun þannig að þetta eru náttúrlega ekkert nema dylgjur frá þeim sem saka aðra um dylgjur, svo það sé algerlega á hreinu.

Það er hins vegar rétt að ég hef talað fyrir vissum hugmyndum. Ég hef verið með vissar kynningar og fór með þær fyrir umhverfis- og samgöngunefnd og ekkert nema sjálfsagt. En ég vil líka benda á það, fyrst þetta snýst um hvenær umræðan hófst í nefndinni, að hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði starfshóp í upphafi síðasta árs, fyrir um ári, um veggjöld. Stuttu síðar kom (Forseti hringir.) formaður nefndarinnar, Eyjólfur Árni Rafnsson, og kynnti tillögur hennar fyrir umhverfis- og samgöngunefnd þannig að það er ár síðan umhverfis- og samgöngunefnd byrjaði að ræða þessi mál.