149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Eftir því sem ég las í vinnu nefndarinnar var ekkert í hendi eða neitt um einhver veggjöld fyrr en drög að nefndaráliti meiri hlutans bárust minni hlutanum. Fram að því voru það einmitt bara hugmyndir Sjálfstæðismanna — ókei, tæknilega séð ekki um samgönguáætlun en í daglegu tali er hún nefnd það og ekkert að því að hafa það þannig. Það var ekki fyrr en þá, í desember, kannski að einhver muni nákvæma dagsetningu, ég veit að ég er með dagsetninguna 11. desember á nefndaráliti en það gæti hafa verið aðeins fyrr. Það var í rauninni þá sem við vissum að það væri einhver alvara á bak við veggjöld í tengslum við samgönguáætlun. Það byrjaði þá og kom okkur algjörlega í opna skjöldu.

Hitt eru bara almennar umræður um hvað okkur finnst um veggjöld, sem er mjög áhugavert, en það var engin alvara á bak við það fyrr en nefndarálitið barst. Þá þurftum við að fara að hefja umræður og kalla eftir umsögnum um þá útfærslu.