149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:15]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér fer fram síðari umr. um samgönguáætlun sem hefur verið lengi til umfjöllunar í nefnd. Fyrir liggur ítarlegt nefndarálit ásamt breytingartillögu frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og það álit og breytingartillögu styð ég. Þá styð ég einnig og tók þátt í að vinna breytingartillögu er hv. þm. Jón Gunnarsson lagði fram í dag og fyrir liggur á þskj. 890.

Nefndarálitið er um tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019–2023 og er það aðgerðaáætlun. Síðan fjallar nefndarálitið um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 og það er 15 ára áætlunin.

Ég ætla að byrja á því að drepa á ýmis atriði, bæði í nefndarálitinu og í tillögunum eins og þær voru lagðar fram í haust.

Í stuttu máli felst afgreiðsla meiri hluta nefndarinnar í því að lagðar eru fram minni háttar breytingartillögur sem hafa áhrif á framkvæmdir fyrir árin 2019 og 2020 og leiða fyrst og fremst af breytingum sem hafa orðið á framvindu verka í umsjá Vegagerðarinnar. Auk þess er svo lögð fram tillaga um að haldið verði áfram að vinna að útfærslu gjaldtöku í samgöngum. Engin tillaga um útfærsluna liggur fyrir, sem er það sem ég ætlaði að byrja á að lesa upp en verð að gefa mér aðeins meiri tíma til að finna.

Ég vil leyfa mér að furða mig á þeim misskilningi sem kom fram í máli sumra sem tóku til máls undir liðnum um fundarstjórn forseta.

Þó að verið sé að setja meiri peninga í samgöngur en nokkurn tíma áður bar gestum sem komu fyrir nefndina saman um að það væri ekki nóg. Ef við eigum að komast á ásættanlegan stað varðandi öryggi, umhverfismál, greiðar samgöngur og tengingu byggða verðum við að finna leiðir til að flýta framkvæmdum á næstu árum. Það þýðir að skoða þarf aðrar fjármögnunarleiðir en þær sem nú eru fyrir hendi.

Eins og ég hef áður sagt úr þessum ræðustól þreytist ég ekki á að tiltaka að samgöngur skipta miklu máli og hafa áhrif á alla. Þær eru stærsta byggðamálið og jafnframt heilbrigðismál, menntamál, velferðarmál, umhverfismál, menningarmál og atvinnumál. Það að við höfum í áratugi lagt áherslu á að bæta samgöngur jafnt og þétt um allt land tel ég eina af mikilvægum ástæðum þess að við höfum borið gæfu til að byggja upp þá velferð sem við búum við hér á landi. Áætlunin sem við ræðum var og er fullfjármögnuð í fjármálaáætlun og meira fjármagn er áætlað til vegakerfisins en nokkru sinni áður. Samt er niðurstaða af samtölum við gesti nefndarinnar að allt of mörg ár séu þar til við náum á ásættanlegan stað í viðhaldi og nýframkvæmdum í vegakerfinu. Það er í rauninni sama til hvaða landshluta, landsvæðis eða vegflokks er litið. Vinna vetrarins hefur kennt mér að við verðum að finna leiðir til að fara hraðar í samgönguframkvæmdir en svigrúm í fjármálaáætlun gefur okkur færi á og til þess eru vissulega fleiri en ein leið.

Þegar samgönguáætlun var lögð fram kynnti samgönguráðherra m.a. að unnið væri að heildarendurskoðun á gjaldtöku í vegakerfinu og að áætlað væri að frumvarp um gjaldtöku í samgöngum yrði lagt fram í vor. Við þá stefnumótun er mikilvægt að horft sé á heildarmyndina, áhrif orkuskipta, leiðir til að flýta framkvæmdum og stýra umferð. Við erum á ákveðnum tímamótum og mikilvægt er að umræða um þær leiðir fari fram samtímis. Í útfærslunni er svo mikilvægt að horft verði til jafnræðis og gagnsæis í gjaldtöku og nýtingu fjármuna, auk tæknilegra útfærslna. Þá er mikilvægt að almenn og mögulega sértæk gjaldtaka, eins og veggjöld, auki ekki álögur á einstaklinga umfram þann ábata sem einstaklingarnir njóta af betri vegum. Yfir það fór hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson mjög vel áðan.

Þegar endurskoðun gjaldtöku er lokið þarf að leggja fram nýja samgönguáætlun og flýta framkvæmdum, sem nú eru á öðru og þriðja tímabili samkvæmt forgangsröðun í 15 ára áætlun, og þegar framkvæmdum tengdum borgarlínu hefur verið forgangsraðað, bæði þeim sem þegar eru í áætlun og þeim sem kunna að bætast við.

Í nefndarálitinu tekur meiri hlutinn undir markmið samgönguáætlananna, þ.e. markmiðið um að samgöngur séu greiðar, öruggar, hagkvæmar og umhverfislega sjálfbærar og skýr markmið um jákvæða byggðaþróun, enda kom ekki fram fyrir nefndinni gagnrýni á þau markmið. Gestir sem komu fyrir nefndina voru einróma um þá afstöðu að átak þyrfti í vegaframkvæmdum og viðhaldi í öllum flokkum vega. Uppsafnaður vandi væri mikill og brýnt að framkvæmdahraði yrði meiri en áætlað væri.

Ísland er strjálbýlt og vegakerfið umfangsmikið miðað við fólksfjölda og uppbygging þess hefur alla tíð verið nokkuð á eftir nágrannalöndunum. Fjárfestingarþörfin nú í heild er 350–400 milljarðar kr. Þá verðum við auðvitað að horfa til þess að fjöldi ferðamanna hefur margfaldast á síðustu árum auk þess sem þróun og uppbygging atvinnulífsins krefst meiri nýtingar á vegakerfinu. Atvinnusvæði fara stækkandi og fólkið sem býr í strjálbýli og vinnur í þéttbýli fer fjölgandi. Ég tel þess vegna brýnt að brugðist verði hratt við þeim vanda sem safnast hefur upp síðustu ár og unnið markvisst að því að bæta vegakerfið og samgöngur eins hratt og mögulegt er með tilliti til hagkvæmni, markmiða í loftslagsmálum, jafnræðis- og öryggissjónarmiða. Þá hefur verið bent á að samkvæmt hagvaxtarspá Hagstofu Íslands dregur úr hagvexti strax á þessu ári. Það eru því að skapast kjöraðstæður til að fara í innviðauppbyggingu og með því byggja undir framfarir í samfélags- og efnahagsmálum í landinu.

Ég ætla að geyma frekari umfjöllun um vegakerfið og snúa mér að almenningssamgöngum og byrja þar á borgarlínunni.

Eins og fram er komið stöndum við á tímamótum. Við erum að leggja drög að miklum breytingum í samgöngum og eins og vel kom fram í sérstakri umræðu um borgarlínu í síðustu viku hefur staðið yfir umfangsmikið samráð ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til að móta áætlanir um framtíðaruppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Ákveðnum áföngum hefur verið náð í samstarfinu og viljayfirlýsing liggur fyrir, en frekari vinna er fram undan. Fram hefur komið að takist að breyta ferðavenjum þannig að fleiri noti almenningssamgöngur, hjóli eða gangi aukist bílaumferð samt sem áður um 24% til 2033. Takist ekki að breyta ferðavenjum verði umferðaraukningin miklu meiri, eða allt að 40%. Það er því mikið í húfi fyrir alla sem ferðast um höfuðborgarsvæðið að það takist að byggja upp samgöngukerfi sem tryggir greiða og örugga umferð með sem minnstum umhverfisáhrifum, hvaða ferðamáta sem menn kjósa. Til þess þarf að skilgreina og efla samgönguleiðir þar sem áhersla er á greiðar almenningssamgöngur, göngu- og hjólastíga, auk bílaumferðarinnar. Allar þær leiðir þurfa að vera vel tengdar milli svæða og við stofnleiðir út fyrir höfuðborgina. Almenningssamgöngur í landinu verða að mynda eina heild á landi, í lofti og á sjó. Borgarlínan er grunnur að raunverulegum valkosti í almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. að til sé hágæðakerfi aðgreint frá annarri umferð.

Í breytingartillögum meiri hluta við samgönguáætlun er tryggt að hægt verði að fara í þá skipulagsvinnu og útfærslu sem þörf er á á árunum 2019 og 2020 þannig að það samstarf geti skilað nánari skilgreiningum á verkefninu, sett verði sameiginleg markmið og fjármögnun útfærð til að hægt verði að fara í frekari forgangsröðun framkvæmdanna, sem þá yrði tilbúin áður en kæmi að endurskoðun samgönguáætlunar síðar á þessu ári.

En svo að almenningssamgöngum utan höfuðborgarsvæðisins. Fram kom fyrir nefndinni að miklir hnökrar hafi verið á framkvæmd almenningssamgangna innan og milli landshluta. Að mínu áliti hefur það ástand varað eins lengi og elstu menn mun, frá því að við reyndum að koma á almenningssamgöngum. Árið 2012 tókust samningar milli Vegagerðarinnar fyrir hönd ríkisins við landshlutasamtökin um að þau fengju þá fjármuni sem áður var ráðstafað í sérleyfi á svæðunum til að skipuleggja almenningssamgöngur í sínum landshluta. Verkefnið fór víðast hvar vel af stað og óx farþegafjöldi víða um tugi prósenta. Þarna urðu miklar framfarir en samt fór fljótt að bera á hnökrum í rekstrinum og þeir hafa farið vaxandi. Farþegum hefur fækkað í kjölfar skorts á fjármagni og ýmis vandkvæði hafa komið upp, m.a. þar sem sérleyfi hafa ekki haldið og aðrir rekstraraðilar hafa í rauninni fleytt rjómann af umferðinni og vantað hefur samfellu í kerfið um land allt. Öll samtökin hafa því sagt upp samningunum, en gengið hefur verið frá tímabundinni lausn út árið 2019 og nú er unnið að mótun heildstæðrar stefnu sem næði til samgangna á landi, í lofti og á sjó. Það er lykilatriðið og liður í því að byggja upp framtíðarfyrirkomulag. Einn möguleikinn sem landshlutasamtökin hafa verið að skoða er að kanna fýsileika þess að stofna eitt sameiginlegt félag til að halda utan um almenningssamgöngur í landshlutunum. Stefnt er að því að nýtt fyrirkomulag taki gildi um næstu áramót.

Skýrt kom fram á fundum nefndarinnar hversu mikilvægt innanlandsflugið er fyrir Norðurland, Austurland og Vestfirði. Meiri hlutinn tekur heils hugar undir það markmið samgönguáætlunar að íbúar landsbyggðarinnar eigi þess kost að komast til höfuðborgarsvæðisins á um þriggja og hálfrar klukkustunda samþættum ferðatíma.

Þá ætla ég aðeins að koma inn á samskipti sveitarfélaga og Vegagerðarinnar. Ítrekað kom fram á fundunum að koma þurfi samskiptum Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna í fastara form þannig að komið verði á ákveðnum verklagsreglum til að tryggja náið samráð milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaga til þess að forgangsraða framkvæmdum, undirbúa skipulags- og framkvæmdaáætlanir, samráð varðandi kröfulýsingar fyrir t.d. þjónustu, svo sem snjómokstur, hálkuvörn og dýpkunarframkvæmdir í höfnum og fleira mætti telja. Hluti af því sem þarna hefur komið fram er að vegþjónusta í mesta strjálbýlinu séu í rauninni ekki í takt við það að þar sæki fólk orðið undantekningarlaust atvinnu inn til þéttbýlisins.

Mikið er rætt um umferðaröryggi í tengslum við forgangsröðunina en umferðaröryggi er auðvitað út af fyrir sig sérstakt mál og fær umfjöllun í nefndaráliti meiri hlutans. Mig langar að koma inn á sjónarmið um umferðaröryggi ungmenna sem við fengum sérstaka kynningu á, að vert væri að huga að þeim leiðum sem ökumenn sem eru að stíga sín fyrstu skref í umferðinni fara um á leið til framhaldsskóla. Á þeim leiðum eru víða einstakir hættustaðir þar sem ungmennin hafa verið að safnast saman. Við fengum til okkar ungmennaráð á Suðurnesjunum sem fór yfir þau mál með okkur og var það mjög athyglisverð umræða. Þar á meðal kom skýrt fram að vetrarþjónustan er lykilþáttur í umferðaröryggi þessa hóps, auk þess að snerta alla aðra hópa í umferðinni. Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið um umferðaröryggi.

Mig langar einnig að taka undir það markmið í 15 ára áætluninni að tryggja rétta og samræmda skráningu samgönguslysa, sem ég held að sé töluvert ábótavant.

Það er mikið eftir en ræðutíminn styttist. Ég held að ég fari næst í flugið. Flugstarfsemi á Íslandi hefur margfaldast á fáum árum og þess vegna hefur flugöryggið aldrei verið mikilvægara og ýmislegt fleira í því sem skiptir okkur miklu meira máli en fyrir örstuttu síðan, svo sem aðstaða til kennsluflugs þar sem vaxandi hópur starfar við flug á Íslandi. Mikil uppbygging hefur átt sér stað á Keflavíkurflugvelli en aftur á móti hefur dregið verulega úr framlögum til uppbyggingar á öðrum flugvöllum. Það er þess vegna mjög brýnt að bæta net millilandaflugvalla til að tryggja getu þeirra til að þjóna sem varaflugvellir fyrir vaxandi flugumferð til og frá landinu með fullnægjandi hætti.

Í byrjun desember 2018 skilaði starfshópur ráðherra skýrslu. Hópnum var falið að setja fram tillögur að breyttu rekstrarformi flugvalla innan lands með það að markmiði að ná fram hagkvæmari rekstri á innanlandsflugi og skilvirkari rekstri flugvalla, sem skilar sér til neytenda. Jafnframt átti að móta tillögu um að gera innanlandsflugið að hagkvæmum kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar og að almenningssamgöngur verði áfram byggðar upp um land allt. Í stuttu máli tekur nefndin undir þær tillögur sem starfshópurinn lagði fram og leggur fram breytingartillögur í þá átt að þeim verði hrint í framkvæmd. Þær felast í að millilandaflugvellirnir, Keflavíkurflugvöllur, Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur, verði skilgreindir sem kerfi flugvalla með sameiginlegan kostnaðargrunn og Isavia falin fjárhagsleg ábyrgð á rekstri, viðhaldi og uppbyggingu þeirra. Með því geti Isavia lagt á og innheimt þjónustugjöld í samræmi við kostnað félagsins af rekstri kerfisins.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið skuli hefja viðræður við Isavia um breytingar á þjónustusamningi sem taki tillit til hins nýja fyrirkomulags og þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar eru, svo sem að auka tekjustreymi flugvallakerfisins um leið og nauðsynlegu þjónustustigi er viðhaldið. Samhliða verði hafnar viðræður á milli samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins um mótun eigandastefnu Isavia eins og stjórnarsáttmálinn kveður á um. Þá nálgun tel ég mjög mikilvæga.

Samhliða þarf nýtt rekstrarfyrirkomulag þessara flugvalla að leiða til þess að þeir fjármunir sem ætlaðir voru til viðhalds og endurnýjunar á árunum 2020–2023 færist til eflingar á innanlandsflugvallakerfinu og annarra flugvalla í grunnneti þar sem viðhald og endurnýjun er orðin aðkallandi, m.a. með hliðsjón af öryggissjónarmiðum. Þá er mikilvægt að finna leiðir innan þjónustusamningsins við Isavia til að bregðast við þörf á yfirborðsviðhaldi og þörf fyrir að auka móttöku farþega í millilandaflugi til Akureyrar. Við því þarf að bregðast strax í ár.

Þá er í nefndarálitinu áréttað það sem raunar kemur fram í áætluninni eins og hún var lögð fram, að Reykjavíkurflugvelli þurfi að viðhalda og byggja upp að því marki að hann sinni því hlutverki sem hann skipar á öruggan og viðunandi hátt þar til sambærileg fullbúin lausn finnst, flytjist flugvöllurinn úr Vatnsmýrinni. Þá er, eins og áður kom fram, mikilvægt að tengja flugvöllinn öðrum almenningssamgöngum. Uppbygging innanlandsflugvallar getur stuðlað að aukinni dreifingu ferðamanna um land allt. Það bætir aðstöðu til kennslu, tryggir öryggi á margvíslegan hátt, svo sem með aðstöðu fyrir sjúkraflug og á ýmsa aðra vegu.

Komið er að lokum ræðutíma í þessari umferð. Í næstu ræðu mun ég m.a. fjalla um niðurgreiðslu á innanlandsflugi og um vegaframkvæmdir.