149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:39]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið en ítreka spurningu mína: Hvernig líst hv. þingmanni á tillögur minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar er varðar það að niðurgreiða sérstaklega farmiða eða kort í almenningssamgöngur á landi fyrir þá sem þurfa daglega að sækja vinnu, nám eða heilbrigðisþjónustu í næsta byggðarlag, ef svo má segja? Við horfum auðvitað svolítið mikið á suðvesturhornið, þ.e. á Suðurland, Suðurnes, Vesturland, af því að íbúar þar þurfa að sækja þessa þjónustu á höfuðborgarsvæðið, þetta er eitt atvinnusvæði. Hvernig líst hv. þingmanni á þær tillögur að fara í svolítið kröftuga innspýtingu hvað varðar almenningssamgöngur?

Svo er það spurning mín varðandi það að leggja veggjöld í jarðgöng á Íslandi. Þá langar mig aðeins að spyrja hvaða regla eigi að gilda, hvernig tryggja eigi jafnræði milli íbúa landsins. Hvers vegna á að undanskilja einhver jarðgöng og önnur ekki ? Og hvers vegna kemur ekki fram í nefndaráliti að þau eigi að falla niður, heldur að veggjöld í jarðgöngum eigi að vera viðvarandi? En talað er sérstaklega um að veggjöld á vegum eigi að leggjast af þegar búið er að greiða eitthvað upp.

Mig langar aðeins að fá útskýringu frá hv. þingmanni á því: Hver er munurinn á vegi og göngum?