149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:41]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur andsvarið. Ef ég byrja á almenningssamgöngunum þá eru þær auðvitað niðurgreiddar nú þegar. Um það snýst framlag ríkisins. Það snýst um að niðurgreiða almenningssamgöngur. Að því leyti er ég er hlynnt því. Hins vegar er það eitt af því sem verið er að útfæra í þessu samstarfi, hvort það verður einhver breyting á því og hvernig hlutfallið af rekstrarkostnaðurinn skiptist á ríki og sveitarfélög. Eitt af því sem olli landshlutasamtökunum vandræðum var að það var verulega niðurgreitt fyrir tiltekna hópa, sem voru eldri borgarar, öryrkjar og námsmenn, og svo á endanum var það þannig að það var eini hópurinn sem nýtti samgöngurnar. Það er hluti af vandræðunum sem það verkefni rataði í.

En að jarðgöngunum á Íslandi. Ef ég les bara upp textann úr nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Innheimta megi veggjald í jarðgöngum á Íslandi samkvæmt nánari útfærslu, með undantekningum þar sem svo er ákveðið. Gjaldtöku í jarðgöngum verði ætlað að standa undir þjónustu og rekstri jarðganga,“ — þjónusta og rekstur eru viðvarandi og ekki endanleg — „sem er hærri fjárhæð en á samsvarandi löngum stofnvegakafla, og einnig hlut í nýbyggingum. Gjaldtakan verði liður í nýrri jarðgangaáætlun sem væri hluti af samgönguáætlun með það að markmiði að ekki verði hlé á uppbyggingu jarðganga. Í þeirri áætlun verði jafnframt tilgreint hvaða jarðgöng falla undir gjaldtöku og í hversu langan tíma.“

Þarna náttúrlega er bara verið að leggja grófu línurnar. Öll útfærslan en svo eftir. Hún byggir á jafnræði og gagnsæi, þannig að að hluta til ræðst það af því hvernig hægt er að haga (Forseti hringir.) gjaldtöku til þess að stuðla að jafnræði og gagnsæi í heildarmyndinni.